19. desember, 2017
Stjórn Öryrkjabandalags Íslands, á neyðarfundi sínum 18. desember 2017, lýsir gríðarlegum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Skorað er á þingheim að standa við gefin loforð með því að gera strax mannsæmandi breytingar á framlögðu fjárlagafrumvarpi og leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega:
- Hækka þarf óskertan lífeyri almannatrygginga verulega.
- Afnema verður „krónu-á-móti-krónu“ skerðingu sérstakrar framfærsluuppbótar.
Greinargerð
Kjör meginþorra lífeyrisþega hafa rýrnað á síðustu árum. Þrátt fyrir loforð hefur kjaragliðnun fyrri ára ekki verið leiðrétt. Þvert á móti hefur hún aukist. Frá 2013 hefur óskertur lífeyrir almannatrygginga hækkað mun minna en hækkun lágmarks- og meðallauna.
Frá árinu 2010 hefur kaupmáttur launa aukist stöðugt ár frá ári. Hjá örorkulífeyris-þegum hefur þróunin verið með allt öðrum hætti. Kaupmáttur heildartekna þeirra rýrnaði flest árin og hefur lítið breyst síðustu tvö ár. Þá hefur byrði vegna húsnæðiskostnaðar, sem var mjög íþyngjandi fyrir, aukist enn meira með gríðarlegum hækkunum.
Fyrir alþingiskosningar 2016 og 2017 voru loforð gefin um að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Ekkert hefur bólað á efndum.
Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 er ætlunin að hækka greiðslur til lífeyrisþega um 4,7%. Í krónutölum myndi það þýða að óskertur lífeyrir almannatrygginga myndi fara úr tæpum 228 þús. kr. í rúmar 238 þús. kr. Eftir skatt yrði hækkunin í kringum 6.700 kr. á mánuði. Þessi uppfærsla myndi sáralitlu breyta fyrir fólk með lágar tekjur, sem mun áfram þurfa að velta hverri krónu fyrir sér.
Ljóst er að framfærsla örorkulífeyrisþega gerir þeim ekki kleift að lifa mannsæmandi lífi og er fólki haldið í fátæktargildru. Tekjuskerðingar eru verulegar þrátt fyrir lágar tekjur. Allar skattskyldar tekjur yfir eina krónu á mánuði skerða sérstöku framfærsluuppbótina krónu- á- móti- krónu, sem örorku- og endurhæfingar- lífeyrisþegar með lægstu tekjurnar eru með.
Gert er ráð fyrir að ríkissjóður skili 48 milljarða króna afgangi á fjárlögum. Þrátt fyrir það eru engin áform sjáanleg hjá stjórnvöldum um að draga úr tekjuskerðingum eða afnema „krónu- á -móti- krónu“ skerðingar hjá örorkulífeyrisþegum.
Ekkert um okkur án okkar!
Frétt á ÖBÍ.is