Ályktun frá Stjórn Blindrafélagsins

 

Ályktun samþykkt á stjórnarfundi Blindrafélagsins 26. febrúar 2009 í tilefni ráðningar forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga:

„Félagsmálaráðherra hefur ráðið Huld Magnúsdóttur í stöðu forstjóra Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, en stofnunin hóf starfsemi þann 1 janúar 2009.

 Blindrafélagið leggur mikið upp úr því að eiga sem best samstarf við alla þá aðila sem koma að þeim hagsmunamálum sem félagið sinnir og býður því hinn nýja forstjóra velkominn til starfa.

 Að mati forystu Blindrafélagsins voru í hópi umsækjenda mjög hæfir einstaklingar sem Blindrafélagið þekkir vel til og jafnframt eru vel kunnugir málefnum blindra og sjónskertra. Enginn þeirra varð fyrir valinu í stöðu forstjóra miðstöðvarinnar.

Að því gefnu að félags- og tryggingarmálaráðuneytið hafi staðið faglega að ráðningunni, má ljóst vera að Blindrafélagið getur haft miklar væntingar til starfa og þekkingar hins nýráðna forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.“

Stjórn Blindrafélagsins,
Samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi

 

Grein