Samþykkt á málþingi - Breytt hlutverk almannheillasamtaka á erfiðleikatímum
Samtökin almannaheill, sem eru regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka sem starfa að almannaheillum, minna á mikilvægi starfsemi sinnar í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu, og skora á Alþingi að skera ekki niður fjárframlög til slíkra samtaka við endurgerð fjárlaga. Vegna mikillar sjálfboðavinnu innan almannaheillasamtaka margfaldast hver króna sem til þeirra er veitt og samtökin þurfa á fjármunum að halda til þess að geta sinnt starfi sínu af krafti. Jafnframt skorar Almannaheill á fyrirtæki og einstaklinga að koma til liðs við almannaheillasamtök og leggja þar með sitt af mörkum til uppbyggingar íslensks samfélags.
Aðildarfélög Samtakanna almannaheilla
Aðstandendafélag aldraðra
Bandalag íslenskra skáta
Blindrafélagið
Geðhjálp
Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs
Heimili og skóli
Hjálparstarf kirkjunnar
Krabbameinsfélag Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Landvernd
Neytendasamtökin
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Ungmennafélag Íslands
Öryrkjabandalag Íslands
Landsamtökin Þroskahjálp
Greinargerð: Verum virk — Veitum liðsinni
Á næstu vikum og mánuðum mun mikið reyna á íslensk almannaheillasamtök. Þau þurfa að leggja sig fram sem aldrei fyrr, virkja það afl sem í þeim býr og fá nýja sjálfboðaliða og félagsmenn til starfa. Þessi samtök almennings þurfa með öllum tiltækum ráðum að vinna að lausnum á viðfangsefnum sem knýja dyra til að draga úr afleiðingum þeirra áfalla sem fólk af öllum stéttum hefur orðið fyrir í fjármálakreppunni sem gengur yfir heiminn.
Á það skal minnt að fjöldi manns treystir á starfsemi frjálsra félagasamtaka hvað varðar fjárhagslega afkomu, atvinnu, þjónustu og annars konar stuðning. Skjólstæðingar þessara íslensku samtaka í öðrum löndum eiga einnig mikið undir að reglulegur stuðningur berist til þeirra.
Mörg almannaheillasamtök hafa sjálf orðið fyrir tjóni vegna fjármálakreppunnar. Þau hafa sum tapað fjármunum, og stuðningsaðilar annarra hafa orðið að draga saman seglin eða beinlínis horfið af vettvangi. Því er hætta á að starfsemi íslenskra almannaheillasamtaka veikist á næstunni. Til þess að samtökin geti áfram gegnt sínu mikilvæga hlutverki fyrir samfélagið, hvetur fundur á vegum Samtakanna almannaheilla landsmenn til sjálfboðaliðastarfa og aukinnar þátttöku í þágu samfélagsins.
Ennfremur eru íslensk stjórnvöld eindregið hvött til að skapa starfsemi frjálsra félagasamtaka hagstætt lagalegt umhverfi til frambúðar og til að beita sér fyrir því að starfsumhverfi samtakanna verði ekki síðra, hvað skattgreiðslur varðar, heldur en gerist í nágrannalöndunum.