383 milljón króna samningur um fyrsta áfanga máltækniáætunar

Hópmynd af fulltrúum Almannaróms og SÍM að lokinni undirskrift
Hópmynd af fulltrúum Almannaróms og SÍM að lokinni undirskrift

Þann 4. september 2019 undirrituðu Almannarómur – Miðstöð um máltækni og rannsóknarhópurinn SÍM (Samstarf um íslenska máltækni) samning um smíði innviða í máltækni fyrir íslensku og fór undirritun fram í Vigdísarstofu í Veröld, húsi Vigdísar. Blindrafélagið hefur verið virkur aðili að Almannaróm allt frá upphafi þess að Allmannarómur var stofnaður og nú á félagið aðild að SÍM hópnu.

Í SÍM eru níu fyrirtæki og stofnanir með sérþekkingu á sviði málvísinda og máltækni. Aðilar að SÍM eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Blindrafélagið, Ríkisútvarpið, Creditinfo Fjölmiðlavaktin ehf., Gammatek ehf., Miðeind ehf. og Tiro ehf. Ákveðið var að leita samninga við SÍM um að vinna að þeim rannsóknum sem felast í fyrsta áfanga máltækniáætlunar að undangenginni forkönnun Ríkiskaupa.

 Samningurinn, sem er til eins árs, tekur til fyrsta áfanga máltækniáætlunar þar sem megináhersla er lögð á söfnun og vinnslu gagna. Aðrir hlutar samningsins taka til smíði stoðtóla fyrir máltækni, vélrænna þýðinga, málrýni, smíði talgreinis og smíði talgervils. Hugbúnaður, sem verður þróaður sem hluti verkefnisins, verður aðgengilegur með opnum leyfum. Gögn sem verða aðgengileg sem hluti verkefnisins verða einnig háð opnum leyfum eins og framast er unnt. Í samningnum er tekið fram að SÍM muni leggja áherslu á frekara samstarf við atvinnulíf og rannsakendur á sviði máltækni, á Íslandi og á alþjóðavettvangi, í því skyni að hraða þróun máltæknilausna fyrir íslensku. Greiðslur fyrir rannsóknir og þróun á samningstímabilinu munu nema 383 milljónum króna. 

 Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:

„Við höfum ákveðið að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið og þar er að mörgu að hyggja. Máltækniáætlunin og framkvæmd hennar eru meðal mikilvægustu skrefanna sem við stígum nú til að tryggja betur framtíð íslenskunnar.“

 Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms:

„Sá tónn sem hér er sleginn í samstarfi háskólasamfélagsins og atvinnulífsins er mikilvægur upptaktur að nýsköpun í máltækni fyrir íslensku. Meginmarkmið máltækniáætlunar og þeirrar framkvæmdaáætlunar sem við höfum sett fram, er að þróa innviði fyrir máltækni sem verða gerðir aðgengilegir fyrirtækjum, stofnunum og almenningi endurgjaldslaust. Jafnframt fjleggjum við áherslu á að leyfiskeðja afurðanna verði skýr, þannig að það verði eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að nýta lausnirnar sem grunn að vörum og þjónustu fyrir íslenskan neytendamarkað.“

 Anna Björk Nikulásdóttir, verkefnastjóri SÍM:

„Aðilar innan SÍM hafa undanfarin ár unnið að grunnþróun í máltækni fyrir íslensku og byggt upp þekkingu á sviðinu. Með því að sameinast um þetta stóra verkefni nú, þvert á háskóla, stofnanir og fyrirtæki, verður lagður grunnur að öflugu „máltæknivistkerfi“ fyrir íslensku, þar sem gögn og kjarna-hugbúnaður verða aðgengileg á einum stað.“ 

Um Almannaróm – Miðstöð um máltækni

Almannarómur starfrækir miðstöð um máltækni á grundvelli samnings við Mennta- og menningarmálaráðuneytið en samkvæmt honum er Almannarómi m.a. falið að gera samninga við þá aðila sem falin verður framkvæmd einstakra þátta máltækniáætlunar, og að fylgja eftir framkvæmd þeirra.

Nánari upplýsingar veita Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir í síma 7729133 og Anna Björk Nikulásdóttir í síma 8976642.