Hundurinn mun leysa hestinn af
“Mér líst mjög vel á hundinn þótt ekki sé komin nein reynsla að ráði á hann sem leiðsöguhund hjá mér. Þetta er eins og að spyrja foreldri eftir klukkustund hvernig það sé að vera foreldri,” segir Hólmarinn Alexander Hrafnkelsson í gamansömum tón þegar hann er inntur eftir því hvernig honum lítist á leiðsöguhundinn Exo sem hann fékk afhentan frá Blindrafélaginu fyrir skemmstu. Alexander, betur þekktur sem Alli, var þá einn af fjórum blindum og sjónskertum Íslendingum sem fengu sérþjálfaða norska labrador hunda, en þetta er í fyrsta skipti sem slíkir hundar eru afhentir hér á landi.
Hrörnunarsjúkdómur leiddi til blindu
Alli er bæði fæddur og uppalinn í Stykkishólmi en flutti til Reykjavíkur 22 ára gamall þegar í ljós kom að hann var með hrörnunarsjúkdóm sem leiðir til blindu. Hann bjó einnig í Borgarnesi um tveggja ára skeið en eiginkona hans, Ólöf Guðmundsdóttir, er þaðan. Undanfarin ár hafa þau hjón búið í Mosfellsbæ ásamt tveimur börnum sínum. Þar stundar Alli hestatamningar af miklum móð en hann er með um 35 hross á sínum snærum og hefur selt hesta bæði til innlendra og erlendra aðila. “Við fluttum í Mosfellsbæ eftir að hafa fest þar kaup á upplýstri reiðskemmu. Ég er enn með sjónleifar í dagsbirtu og get því tamið inni í skemmunni þótt dimmi úti,” segir Alli sem lætur hindranir á vegi sínum greinilega ekki stöðva sig. “Það þýðir ekkert að setjast bara niður og fara að gráta.”
Hann segir að hundurinn Exo muni einmitt gagnast honum mest þegar dagsbirtu þrýtur. “Þá verð ég alveg blindur. Sjúkdómurinn byrjar þannig að ljósop augans hættir að virka. Svo missti ég hliðarsjón og er með það sem kallað er kíkissjón.” Alli segir að þótt undarlegt megi virðast eigi hann auðveldara með að sitja hest en að ganga. “Þegar ég sit á hesti sér hann um að varast það sem fyrir framan er. Þess vegna má segja að hundurinn muni leysa hestinn af þegar ég er á gangi.”
Hæfur til að eiga hund
Leiðsöguhundar sem Exo fara í gegnum stífa þjálfun í heilt ár. Einungis þeir hundar sem hafa verið metnir sérstaklega hæfir til leiðsagnar blindra og sjónskertra fara í slíka þjálfun. Eigendur þeirra þurftu hins vegar líka að fara í hæfismat. “Ég fór til Noregs í fyrrasumar ásamt öllum þeim sem sóttu um að fá hund. Þjálfararnir þurftu að kynna sér hvort fólk væri hæft til að fá hund, bæði félagslega og líkamlega.”
Hver hundur er valinn sérstaklega fyrir væntanlegan notanda enda að mörgu að hyggja, til að mynda gönguhraða beggja. Þegar búið var að velja hundana hófst þjálfun þeirra og að henni lokinni voru þeir fluttir til Íslands. Eftir sóttkví hófst tveggja vikna stíf samþjálfun hunda og notenda í Nýjabæ í Flóa. Nú er tekin við jafnlöng þjálfun á heimaslóðum hvers notanda. Ef vel tekst til má ætla að hundurinn verði félagi og samstarfsaðili notanda síns í heilan áratug. “Nú erum við að læra gönguleiðir í kringum heimili mitt og vinnustað með þjálfaranum, til dæmis leiðina í hesthúsið,” segir Alli.
Hundinum fylgir aukið sjálfstæði
Eitt það erfiðasta við sjónskerðinguna var missir sjálfstæðis að sögn Alla. “Ég þurfti að stilla líf mitt eftir sjónskerðingunni. Það er engin leið að gera sér grein fyrir því fyrirfram hvað missir sjálfstæðis er erfiður. Mér fannst til dæmis gríðarlega erfitt að þurfa að hætta að keyra. Að geta ekki skotist út í búð lengur eða gert annað sem öðrum þótti sjálfsagt. Hundurinn breytir miklu varðandi þetta, sérstaklega núna þegar daginn fer að stytta. Þá minnkar starfsgeta mín og ég get minna verið einn úti við.”
En hvert er helsta hlutverk hundsins? “Hann leiðir mig á allri göngu, lærir þær leiðir sem ég er vanur að fara, þekkir gangbrautir og stöðvar við gangstéttarbrúnir og gatnamót. Svo getur hann til dæmis fundið hluti sem ég missi og finn ekki aftur; húfu, vettlinga, peningaveski, lykla eða farsíma. Á göngu leiðir hann mig framhjá hættum á borð við bíla, staura og fólk. Það eina sem ég þarf að gera er að gefa skipanir á borð við “hægri” og “vinstri”.” Alli hlær þegar hann er inntur eftir því hvort tungumálaörðugleikar hafi gert vart við sig milli þeirra félaga. “Það er nú það. Þeir skilja ekki stikkorðin nema á norsku. Mörg orðin eru þó lík og maður var orðinn ágætur í þessu eftir nokkra daga. Svo breytum við félagarnir orðunum smátt og smátt yfir á íslensku.
sók