370 metrar

Nýr pistill frá skyttunum þremur

 

Við tókum leigubíl niður á Hlemm og röltum dágóða stund eftir Laugarveginum, í heildina voru þetta 370 metrar. Það kom okkur reyndar ekkert á óvart hve lélegt aðgengið er niðri í bæ.

Á þessum 370 metrum rákumst við á sex auglýsingaskilti sem hindruðu för okkar um gangstéttina. Annað sem við rákumst á voru hjólagrindur, blómapottar, vespa sem var lagt þvert yfir gangstéttina og borð og stólar fyrir utan veitingahús, einnig var nóg af tröppum og sorglega háum köntum. Enginn kantur var við gangstéttir þar sem hliðargötur eru, sem er nauðsynlegt fyrir blinda.

Auglýsingaskiltin er ekki sniðugt að hafa úti á miðri gangstétt því blindir eiga auðvelt með að labba á þau þar sem  þeir sjá þau ekki. Hægt væri að hafa þau nær húsunum eða bara hengja þau upp á veggina.

Hjólagrindur og blómapotta mætti merkja með skærum litum eða með ójöfnu í veginum í kring þannig að blindir viti af þeim og geti forðast að klessa á.

Vespum og bílum á ekki að leggja upp á miðjar gangstéttir þar sem það hamlar samgöngur og hjólastólar og fólk með barnavagna þurfa að færa sig út á götuna til að komast framhjá.

Borð og stólar taka of mikið pláss á gangstéttinni frá gangandi vegfarendum. Hægt væri að færa þau nær húsunum eða merkja með því að setja upp grindverk í skærum litum í kring um þau.

Ef það er eitthvað sem við sáum nóg af á Laugarveginum þá voru það tröppur og kantar. Þó að hægt sé að drösla sumum hjólastólum upp kantana þá getur verið erfitt fyrir fólk í rafmagnsstólum að komast þangað, einnig getur verið erfitt fyrir fólk í rafmagnshjólastól, með göngugrindur eða hækjur að komast inn. Hægt væri að kaupa færanlegan ramp sem mætti geyma inni.

Enginn munur er svo á gangstéttum og hliðargötum sem er slæmt fyrir blinda og sjónskerta þar sem þeir vita ekki hvort þeir séu komnir út á miðja götu.

Svo að lokum vantar hljóðmerki og snertihnapp á umferðarljósin á Hlemm. Snertihnappurinn er staðsettur undir kassanum og þegar græni kallinn kemur fer hann að snúast og þá vita daufblindir að þeim er óhætt að ganga yfir götuna.

Við skytturnar þrjár ætlum að breyta þessu (búmm búmm).

 

Skytturnar þrjár