Fundargerð 6. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2022 – 2023, haldinn miðvikudaginn 16. nóvember, kl 15:00.
Stjórn og framkvæmdastjóri:
Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður,
Rósa María Hjörvar (RMH) varaformaður,
Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) gjaldkeri,
Kaisu Kukka-Maaria Hynninen (KKMH) ritari,
Sandra Dögg Guðmundsdóttir (SDG) meðstjórnandi,
Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) varamaður,
Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir (ÁEG) varamaður,
Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður,
Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður,
Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Fundarsetning
SUH setti fundinn, sem haldinn var í Hamrahlíð 17 og á Teams. Fyrir fundinum lá tillaga að dagskrá sem samþykkt var samhljóða. Fundarboð, dagskrá og fundargögn má sjá á Teams svæði stjórnar.
Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð seinasta fundar var samþykkt og verður send stjórnarmönnum til rafræns samþykkis.
Lýst eftir öðrum málum.
GRB og ÁEG
Inntaka nýrra félaga.
SUH bar upp umsóknir 7 umsækjenda og voru þær samþykktar með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar.
Skýrslur, bréf og erindi.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
-
Sjóðurinn Blind börn á Íslandi, úthlutun haust 2022
-
Stofnun CVI hóps
-
Söngvakeppni – Betreff: International Low-vision song contest – ILSC
-
Uppástand í hádegisútvarpi RÁS 1 um aðgengi
-
Dagskrá um Halldór Rafnar 19 janúar 2023
Í skýrslu framkvæmdarstjóra var fjallað um:
Skýrslurnar í heild sinni eru á Teams svæði stjórnar.
Forsendur rekstraráætlunar fyrir 2023
KHE gerði grein fyrir nokkrum atriðum og óvissu sem taka þarf tillit til við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2023. Er þar meðal annars um að ræða óvissu vegna verðbólgu sem nú mælist í kringum 10% og gerð kjarasamninga, en kjarasamningar eru lausir og miklu virðist muna á milli samningsaðila. Fyrsta uppkast að rekstraráætlun fyrir 2023 verður lagt fram á næsta stjórnarfundi.
Félagsfundur 23. nóvember 2022
Dagskrá félagsfundarins liggur fyrir og framsögu menn og fundarstjóri hafa samþykkt þátttöku fyrir sitt leiti. Megin efni fundarins mun vera félagsleg aðstoð við blinda og sjónskerta einstaklinga. Samþykkt var að senda fundinn út í beinu streymi í gegn um Zoom. Ítarlega dagskrá má finna á Teams svæði stjórnar.
Stofnun CIV hóps
Í skýrslu formanns er gerð grein fyrir erindi þar sem óskað er eftir heimild stjórnar um stofnun sérstaks CIV hóps (heilatengdrar sjónskerðingar). Hópnum er ætlað það hlutverk að styðja og fræða þá einstaklinga sem hafa þessa greiningu og aðstandendur þeirra. Var erindið samþykkt samhljóða. Erindið í heild sinni má finna á Teams svæði stjórnar.
Hugmyndir um nafnabreytingu á Hljóðbókasafni Íslands
Meðal stjórnenda og starfsmanna HBS (Hljóðbókasafns Íslands) eru uppi hugmyndir um að breyta nafni safnsins. Sú tillaga sem virðist njóta mest fylgis meðal starfsmanna og stjórnenda er Aðgengisbókasafn Íslands, fyrir blinda sjónskerta og fólk með lestrarhömlun. Meðal stjórnarmanna Blindrafélagsins var mest fylgi við að taka upp gamla nafnið aftur, Blindrabókasafn Íslands fyrir blinda, sjónskerta, lesblinda og fólk með lestrarhömlun. Engin samþykkt var gerð fyrir þennan dagskrálið.
Önnur mál
GRB vakti athygli á ráðstefnu húsnæðismálahóps ÖBÍ. ÁEG vakti athygli á ráðstefnu heilbrigðismálefnahóps ÖBÍ.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.