Fundargerð 4. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2021 – 2022, haldinn miðvikudaginn 29. september ágúst kl. 12:00.
Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir (ÁEG) varaformaður, Kaisu Hynninen (KH) ritari, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) gjaldkeri, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Forföll: Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) varamaður
1. Fundarsetning.
SUH setti fundinn, sem haldinn var í Hamrahlíð 17 og á Teams og bar upp tillögu að dagskrá, sem hefur verið aðgengileg inn á Teams svæði stjórnar. Var tillagan samþykkt
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð seinasta fundar sem legið hefur frammi á Teams svæði stjórnarinnar var samþykkt samhljóða og verður send stjórnarmönnum til rafræns samþykkis.
3. Lýst eftir öðrum málum.
SUH: Rafrænt samþykki fundargerða.
4. Inntaka nýrra félaga.
Fyrir fundinum lágu 13 umsóknir um félagsaðild. Voru umsóknirnar samþykktar með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar.
5. Skýrslur, bréf og erindi.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
- Úttekt á þjónustu við blint og sjónskert fólk.
- Þjónustukönnun meðal blindra og sjónskertra.
- Áherslusvæði og merkingar.
- Þjóðlegi sjónverndardagurinn og Dagur hvíta stafsins.
- Rauða fjöðrin landssöfnun Lionshreyfingarinnar 2021.
- NSK fundur 30. til 31 ágúst 2021.
- Aðalfundur ÖBÍ 15 til 16 október.
- UNK ráðstefna 2022.
- Viðburðir framundan og mikilvægar dagsetningar.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
- Fjáraflanir Blindrafélagsins.
- Erfðagjöf.
- Stöðumat á þjónustu við blint og sjónskert fólk.
- Framkvæmdir við 5. hæð Hamrahlíðar 17.
- Leiðsöguhundar.
- Samstarfs verkefni Blindrafélagsins og Erfðafræðideildar LSH.
- Íslenskunám fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga.
- Skoðanakönnun Gallup.
6. Leiðarlínur og áherslusvæði.
Á fundinn voru mætt þau Hlynur, aðgengis fulltrúi Blindrafélagsins og Vala Jóna Garðarsdóttir umferlissérfræðingur ÞÞM, til að ræða merkingar á áherslu- og varúðarsvæðum á göngusvæðum. Þessi umræða er tilkomin vegna samstarfs um kynningu og sölu á leiðarlínu og áherslumerkingum í almennum rýmum.
Farið var yfir leiðarlínulausnirnar frá Noregi og þær bornar saman við hvernig varúðarsvæði hafa verið merkt hér á landi fram til þessa og hvaða leiðbeiningar eru nú þegar gefnar af til þess bærum aðilum. Aðalleg snýst þetta um mun á notkun doppa, þ.e hvort að þær séu eingöngu notaðar til að merkja varúðarsvæði eða bæði áherslu og varúðarsvæði.
Niðurstaðan varð að ekki skyldi mæla með því að merkingum áherslu og varúðarsvæða verði breitt og Blindrafélagið skyldi ekki mæla sérstaklega með því að doppur verði eingöngu notuð til að merkja varúðarsvæði. Hlutverk Blindrafélagsins væri því fyrst og fremst að mæla með fjölbreyttum útfærslum að því gefnu að þær séu fullnægjandi.
7. Þjónustuúttekt og skoðanakönnun .–
SUH upplýsti um stöðu mála frá síðasta stjórnarfundi þegar ákveðið var að leita að nýjum samstarfsaðila um úttektina. Í framhaldinu hafa SUH og KHE rætt við Einar Þór Bjarnason og Svan Þorvaldsson frá Intellecta um að taka að sér verkefnið. Afmörkun verksins hefur verið yfirfarin og lögð fram ítarleg framvinduáætlun.
Svanur Þorvaldsson mun vinna verkið af hálfu Intellecta en að öðru leiti er skipan verksins sú sama og áður var áætluð með óbreyttum samráðshópi og gert er ráð fyrir allnokkurri aðkomu starfsmanna Blindrafélagsins, aðallega Móniku, við að halda utan um praktísk mál, safna gögnum, ganga frá texta o.s.frv. En einnig má reikna með að leitað verði til fleiri starfsmanna við gagnaöflun.
Verkefnið var samþykkt á síðasta starfsári (sjá fundargerð stjórnarfundar nr. 7 starfsárið 2020-2021) og gengið út frá að það yrði fjármagnað í gegnum verkefnissjóð.
Fyrirhugað er að gera þjónustukönnun meðal blindra og sjónskertra um upplifun þeirra af þjónustu Blindrafélagsins, Miðstöðvarinnar og Hljóðbókasafnsins. Slík könnun gefur okkur dýrmætar upplýsingar til að móta okkar eigið starf en er einnig verðmætt innlegg í úttektina á þjónustu við okkar hóp.
Fyrirliggjandi drög að spurningalista hafa verið unnin í samvinnu við Miðstöðina og Kristján Pétursson hjá Gallup. Áætla má að kostnaður við könnunina verði um 2,5 milljónir króna. Stjórn samþykkti að ráðast í könnunina og að kostnaðurinn verði greiddur úr verkefnasjóði.
8. Alþjóðlegur sjónverndardagur og Dagur Hvíta stafsins.
Úr skýrslu formanns:
Alþjóðlegi sjónverndardagurinn sem haldinn er annan fimmtudag í október ár hvert ber upp á fimmtudaginn 14 október að þessu sinni, daginn fyrir Dag hvíta stafsins sem er 15 október ár hvert. Í samvinnu við Miðstöðina er í undirbúningi dagskrá helguð þessum dögum og er gert ráð fyrir að hún verði fimmtudaginn 14 október.
Eftirfarandi eru drög að dagskránni.
- 10:00 - 14:00 Opið hús hjá Blindravinnustofunni í tilefni að 80 ára afmæli vinnustofunnar.
- 13:00 - 17:00 Hjálpartækjasýning á vegum Miðstöðvar og Blindrafélagsins.
- 15:00 - 17:00 Dagskrá í salnum H17 og kaffiveitingar þar sem eftirfarandi mál verða á dagskrá.
- Leiðsöguhundar, kynning og reynslusaga notanda.
- Rauðafjöðrin, landsöfnun Lionshreyfingarinnar 2021 helguð leiðsöguhundaverkefni Blindrafélagsins. Kynning á Rauðu fjöðrinni og undirritun samstarfssamnings Blindrafélagsins og Lionshreyfingarinnar.
- Rétt greining lykilatriði- Kynning á rannsóknarverkefni LSH um skimun á meinvaldandi genum sem valda arfgengum hrörnunarsjúkdómum í sjónhimnu á Íslandi og skráningu þeirra í miðlæga sjúklingaskrá. Undirritun samstarfssamnings Blindrafélagsins og Landsspítala Háskólasjúkrahús.
9. Önnur mál.
SUH minnti stjórnarmenn á að samþykkja rafrænt samþykki fyrir útsendum fundargerðum.
Fundi slitið kl. 14:10.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.