Fundargerð 9. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn miðvikudaginn 28. nóvember kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.
Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (S.U.H.) formaður, Lilja Sveinsdóttir (L.S.) varaformaður, Eyþór Kamban Þrastarson (E.K.Þ.) gjaldkeri, Rúna Ósk Garðarsdóttir (R.Ó.G.) meðstjórnandi, Guðmundur Rafn Bjarnason (G.R.B.) varamaður (í símasambandi), Rósa Ragnarsdóttir (R.R.) varamaður, Dagný Kristmannsdóttir (D.K.) varamaður, og Kristinn Halldór Einarsson (K.H.E.) framkvæmdastjóri.
Fjarverandi: Hjalti Sigurðsson (H.S.) ritari, Þórarinn Þórhallsson (Þ.Þ.) varamaður.
1. Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.
Formaður (S.U.H.) setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna.
S.U.H. bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.
Lýst eftir öðrum málum: Engin önnur mál.
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð 8. fundar, sem send var stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.
3. Skýrslur bréf og erindi.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
- Fund með stjórnendum Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar 23. nóvember.
- Málstofu um punktaletur 16. janúar.
- Félagsfund 21. nóvember.
- Könnun á húsnæðisaðstæðum félagsmanna og tíðni kynbundins ofbeldis.
- Fund vegna framkvæmda við Hamrahlíð 17.
- U.N.K. ráðstefnu 2019 - undirbúning.
- Erlent og innlent samstarf, mikilvægar dagsetningar.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
- Megin forsendur fjárhagsáætlunar fyrir 2019.
- Framkvæmdir og húsnæðismál.
- Fund með stjórnendum Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar.
- Fjáraflanir.
- Leiðsöguhundaverkefnið.
- Ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.
- Sjóntryggingu bakhjarla.
- Kynningabækling fyrir nýja félaga.
- Lausa íbúð í Hamrahlíð 17.
Erindi:
Fyrir lág erindi frá Gísla Helgasyni varðandi varðveislu á hljóðupptökum. Málið tekið fyrir sem sérstakur dagskrárliður.
4. Inntaka nýrra félaga.
Ekki lágu fyrir umsóknir um félagsaðild.
5. Forsendur rekstraráætlunar fyrir 2019.
K.H.E. gerði grein fyrir helstu tölum sem að taka þarf tillit til við gerð rekstraráætlunar 2019. Kjarasamningar eru lausir í upphafi árs 2019 og því verður að byggja á spám um launahækkanir á árinu 2019. Samkvæmt spám banka og fjármálastofnanna er gert ráð fyrir að verðbólga verði á bilinu 3,5 til 4% á árinu 2019 og launahækkun milli ára verði á bilinu 5,5 til 6%. Ásamt óvissu um gengi krónunnar á komandi fjórðungum liggur óvissa spánna að miklu leyti í því að laun gætu hækkað meira en um 5,6 til 6%. Ef verð á aðföngum Blindrafélagsins hækkar að jafnaði um 3,5% þá er það hækkun um 5,8 mkr. Hækki laun um 6% þá er það hækkun á launakostnaði félagsins upp á 13,8 mkr. Nýtt starf aðgengisfulltrúa mun svo kosta um 4 mkr. Rétt er að halda til haga að gert er ráð fyrir að sala á aðgengislausnum muni standa að mestu undir launakostnaði aðgengisfulltrúa. Til að dekka þennan viðbótarkostnað (19,8 mkr) þá þurfa tekjur Blindrafélagsins að aukast um 8,5% milli áranna 2018 og 2019.
Margt bendir til þess að afkoma félagsins 2018 verði mun betri en áætlanir gera ráð fyrir og að rekstur félagsins skili góðum tekjuafgangi.
Vegna viðhaldsframkvæmda við Hamrahlíð 17 mun árið 2019 verða enn útgjaldafrekara en 2018. Reiknað er með að heildarkostnaðurinn geti orðið um 100 mkr.
Frumáætlun, án þess að kostnaðaráætlun hafi verið gerð, gerir ráð fyrir 80 mkr. kostnaði vegna viðhaldframkvæmda utanhúss, gert er ráð fyrir allt að 10 mkr. vegna framkvæmda innanhúss á annarri og fimmtu hæð, auk þess sem að 10 mkr fari í Leiðsöguhundaverkefnið. Á árinu 2018 er kostnaður vegna viðhaldsframkvæmda orðinn um 47 mkr og hafa þær framkvæmdir verið fjármagnaðar af Verkefnasjóði félagsins. Þær framkvæmdir sem eftir er hægt að fjármagna með sölutekjum af Stigahlíð 71, sem var 60 mkr. og er nú varðveitt í verðbréfum, og lántöku. Með því að nota lántöku til að fjármagna hluta viðhaldsframkvæmdanna þá verður ekki gengið eins nærri handbæru fé og stöðu Verkefnasjóðs og gert yrði án lántöku.
6. Húsnæðismál Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar.
S.U.H. gerði grein fyrir hugmyndum Félagsmálaráðuneytisins um að finna nýtt húsnæði undir starfsemi Þ.Þ.M.
Þetta eru hugmyndir sem að rekja má til þess þegar til stóð að sameina Þ.Þ.M., Greiningastöð ríkisins, Heyrnar og tal og TMF. Þar sem ljóst er að af þessari sameiningu mun ekki verða þá er þær forsendur sem fyrir lágu ekki lengur fyrir hendi.
Félagsmálaráðuneytið hefur auglýst eftir húsnæði sem að Greiningastöð ríkisins og Þ.Þ.M. myndu deila. Stjórnarmenn voru sammála um að það þjónaði ekki hagsmunum notendanna að flytja starfsemi Þ.Þ.M. úr Hamrahlíð 17.
Stjórnendum Þ.Þ.M. hefur verið gerð grein fyrir þessari afstöðu Blindrafélagsins.
Samþykkt var að fela formanni og framkvæmdastjóra að skrifa Félagsmálaráðherra bréf þar sem grein verði gerð fyrir þessari afstöðu Blindrafélagsins.
7. Ferðaþjónusta.
E.K.Þ. sagði frá því að hann hafi reynt að fá upplýsingar um ferðaþjónustunotkun sína í yfirstandandi mánuði. Það hafi gengi mjög illa og hann vildi að reynt yrði að leita svara um hvort að hægt væri að laga þetta.
S.U.H., K.H.E. og E.K.Þ. munu funda með Hreyfli til að ræða hvort að mögulegt sé að veita þessar upplýsingar.
8. Starfsáætlun stjórnar.
S.U.H. lagði fram eftirfarandi drög að starfsáætlun:
- 9. janúar (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 11.
- 16. janúar (miðvikudagur) Málstofa um Punktaletur.
- 18. janúar (föstudagur) Samstarfsfundur stjórnar, deilda og nefnda.
- 19. janúar (laugardagur) Stjórnarfundur nr. 12 (fundur stjórnar með UngBlind).
- 30. janúar (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 13
- 30. janúar (miðvikudagur) Hádegisspjall.
- 20. febrúar (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 14
- 27. febrúar (miðvikudagur) Hádegisspjall.
- 4-8. mars NSK/NKK fundur í Noregi (Hurdal) (eftir er að fastsetja dagana).
- 13. mars (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 15
- 14. mars (fimmtudagur) Félagsfundur.
- 3. apríl (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 16
- 24. apríl (miðvikudagur) Stjórnarfundur nr. 17
- 24. apríl (miðvikudagur) Hádegisspjall.
- Valkostur 27. Apríl (laugardagur) Aðalfundur.
- Valkostur 11. eða 18. maí (laugardagur) Aðalfundur.
9. Varðveisla menningararfsins.
S.U.H. kynnti erindi frá Gísla Helgasyni þar sem að hann gerir að umtalsefni varðveislu efnis sem birt hefur verið á Völdum greinum í gegnum árin. Stjórn samþykkti að eðlilegt væri að gera efnisyfirlit yfir allar Valdar greinar sem að eru varðveittar og ekki er til efnisyfirlit yfir.
Var S.U.H. og K.H.E. falið að ræða við Gísla.
Fundi slitið kl 17:50.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.