Umsögn um fjárlög fyrir árið 2025

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra, hefur verulegar áhyggjur af þróun fjárveitinga til Sjónstöðvar, Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu. Samkvæmt fjárlögum stendur stofnunin frammi fyrir verulegum niðurskurði.

Sjónstöðin, sem er flaggskip endurhæfingar fyrir blindra og sjónskertra, hefur meira en sýnt og sannað gildi sitt, hvort sem það er mælt í aukinni atvinnuþátttöku hópsins eða í námi. Blindrafélagið hefur frá upphafi fjárfest myndarlega í umgjörð stofnunarinnar og stutt með fjárframlögum ýmis þróunarverkefni. Nýlega var byggð hæð fyrir Sjónstöðina, sérstaklega innréttur með þarfir hennar í huga.

Á sama tíma hefur ríkið hægt og bítandi dregið úr fjárframlögum til stofnunarinnar, sem nú hefur verulega minna fé til umráða en lagt var upp með, bæði ef tekið er mið af verðlagsþróun og mannfjöldaþróun. Stöðugildum fækkar stöðugt, sem hefur samsvarandi neikvæð áhrif á þjónustuna við notendur.  Sérfræðingum fækkar einnig, og þetta eru sérhæfð störf sem krefjast langrar þjálfunar.

Við þessa grafalvarlegu þróun bætist svo harkalegur niðurskurður á framlagi ríkisins í fjárlögum fyrir næsta ár, sem er ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til stofnunarinnar. Óbreytt staða mun hafa veruleg áhrif á þjónustu stofnunarinnar og setur allar væntingar um áframhaldandi þróun hennar í uppnám.

Það er von Blindrafélagsins að stjórnvöld grípi í taumana og slái verndarskjöld um þessa mikilvægu og sérhæfðu þjónustu. Það þarf að falla frá niðurskurði og tryggja að fjárframlög haldi í við verðlagsþróun. Auk þess þarf að tryggja að þau hjálpartæki sem stofnuninni ber lagaskylda til að úthluta séu fullfjármögnuð og að vanáætlun sé ekki færð sem tap á milli ára, heldur sé þessi liður fjármagnaður í jafnvægi um áramót í samræmi við Sjúkratryggingar Íslands. Endurgreiðsla á gleraugun barna, sem er ekki hluti af lögbundnu hlutverki Sjónstöðvarinnar, hefur sömu áhrif sem tilfærsluliður. Þegar gleraugnaendurgreiðslur verða umfram fjárveitingu, kemur það niður á lögbundnu hlutverki Sjónstöðvarinnar. 

Það er von Blindrafélagsins að komið verði til móts við þessar athugasemdir svo hægt sé að tryggja fulla þátttöku blindra og sjónskertra í íslensku samfélagi. Miklar framfarir hafa áunnist undanfarna áratugi, ekki síst fyrir tilstilli Sjónstöðvarinnar, en það þarf áfram að tryggja fjármagn svo að sá góði árangur viðhaldist. Það skýtur skökku við að samhliða lögfestingu Samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og heildarendurskoðun á almannatryggingarkerfinu sé vegið svo alvarlega að þeirri stofnun sem ein sinnir endurhæfingu og þjónustu við blint og sjónskert fólk.

Lykilatriði:

  • Framlag ríkisins til stofnunarinnar var árið 2010 292.300.000 kr. Sem á núvirði samsvarar um 518 milljónum, en í fjárlögum er gert ráð fyrir að framlagið sé 452,4 milljónir.
  • Stöðugildi á stofnunninni voru á árinu 2010 alls 26,5, en eru árið 2024 komin niður í 18,9 að viðbættum 2,2 stöðugildum innan vinnustaðasamninga öryrkja.
  • Árið 2010 voru notendur um 1200 sem í dag eru notendur orðnir rúmlega 1700 og mun sú fjölgun fyrirsjáanlega aukast á næstu árum vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar.
  • Vanáætlun tilfærsluliða kemur niður á rekstrarfé næsta árs þar sem tilfærsluliðurinn er færðu innan reksturs Sjónstöðvarinnar ólíkt t.d. því sem tíðkast hjá Sjúkratryggingum,  sbr. endurgreiðsla á gleraugum til barna og úthlutun hjálpatækja.

Reykjavík 3.10.2024

Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson
formaður Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi