Stefnumót Blindrafélagsins 25. maí 2016

Skilaboð þátttakenda um hlutverk, starfsemi og siðareglur

Skýrsla eftir Sigurborgu Kr. Hannesdóttur, MSc, 
 

Skýrslan á word-sniði

Skýrslan á pdf-sniði.


    
Skilaboð þátttakenda um hlutverk, starfsemi og siðareglur
    
STEFNUMÓT BLINDRAFÉLAGSINS
25. MAÍ 2016

 

 Efnisyfirlit
1.      Inngangur. 
2.      Hver erum við? – Niðurstöður hópa. 
3.      Hvað gerum við? – Niðurstöður hópa. 
1)      Valdefling. 
2)      Stuðningur. 
3)      Þjónusta. 
4)      Félagið og félagsstarf. 
5)      Barátta. 
4.      Nánari umfjöllun.
1)      Hlutverk og áherslur.
2)      Barátta. 
3)      Starfshættir. 
4)      Sjálfshjálp og stuðningur. 
a)      Faglegur stuðningur. 
b)      Trúnaðarmannakerfið.
c)      Landsbyggðin.
d)      Menntun.
e)      Atvinnuþátttaka.
f)       Jafningjafræðsla og –stuðningur.
g)      Þjónustu- og þekkingarmiðstöð.
h)      Upplýsinga- og tæknimál
5)      Þjónusta.
6)      Fræðsla.
7)      Félagsstarf.
8)      Almannatengsl 
5.      Hverju eiga siðareglur að breyta? – Niðurstöður hópa. 
1)      Markmið siðareglna. 
2)      Framkvæmd. 
3)      Leiðtogar. 
4)      Traust. 
5)      Jöfn tækifæri 
6.      Nánari umfjöllun. 
1)      Almennt um siðareglur. 
a)      Tilefni beitingar. 
2)      Rammi fyrir siðareglur. 
3)      Siðareglur - innihald. 
a)      Kjörgengi, kosningar og starfstími í stjórn. 
b)      Hagsmunir og hagsmunaskráning. 
c)      Meðferð fjármuna. 
d)      Samskipti og samstarf. 
e)      Ráðningar og starfsmannahald. 
f)       Verklag og viðbragð. 
4)      Árangur – inn á við og út á við. 
7.      Að lokum.
8.      Svipmyndir. 

 

 

 


1.Inngangur

Á aðalfundi í mars var stjórn falið að hefja vinnu við að endurskoða og móta lög, siðareglur og verklagsferla fyrir starfsemi Blindrafélagsins. 

Stjórn Blindrafélagsins bauð til Stefnumóts, miðvikudaginn 25. maí 2016.  Með því hófst vinna við endurskoðun og mótun á lögum, siðareglum og verklagsferlum fyrir starfsemi félagsins, samkvæmt samþykkt aðalfundar 2016. 

Eftir setningu formanns fóru fram umræður í hópum, í tveimur umferðum. 

Í fyrri umferð ræddu þátttakendur tvær spurningar, „Hver erum við og hvað gerum við?“  Í þeirri síðari veltu þeir fyrir sér spurningunni „Hverju eiga siðareglur að breyta?“  Umræðan fór fram með svokölluðu „Heimskaffi“ fyrirkomulagi, eða „World Café“, samræðuformi sem notað hefur verið víða um heim í yfir 20 ár.  Þátttakendur byrjuðu umræðu í hópi, hluti hópsins dreifði sér síðan í aðra hópa og loks komu þeir aftur til baka í upphafshópinn.  Með þessu fékkst meiri gerjun og breidd í umræðuna.  Þátttakan var mjög góð og umræður líflegar. 

Umsjón með Stefnumótinu var í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, hjá ILDI og hefur hún unnið þessa samantekt.  Samantektin skiptist í tvo hluta.  Sá fyrri fjallar um umræðuna „Hver erum við og hvað gerum við?“ og sá síðari fjallar um skilaboð þátttakenda um siðareglur.  Í upphafi hvors hluta er greint frá niðurstöðum hópa, sem þátttakendur settu á blað í lok umræðunnar.  Eftir hverja fyrirsögn er undirfyrirsögn, þar sem reynt er að draga fram meginskilaboð í þeim málaflokki.    

Öllum sem þátt tóku í stefnumótinu, riturum hópa, matráðskonum og stjórn eru færðar bestu þakkir fyrir þátttökuna og gott samstarf. 

 

2.Hver erum við? – Niðurstöður hópa

Við lok umræðunnar um spurninguna „Hver erum við og hvað gerum við?“, voru hóparnir beðnir um að setja á blað það sem þeir töldu vera mikilvægasta atriðið, varðandi þetta tvennt.  Fyrst eru hér niðurstöður um fyrri hluta spurningarinnar, „hver erum við?“.   

 

Við erum:

·         Sjálfstæðir einstaklingar með mismunandi þarfir og væntingar og myndum saman eina heild.

·         Hagsmuna- og mannréttindasamtök blindra og sjónskertra.

·         Þjónustusamtök, sem með stuðningi stuðla að sjálfstæði einstaklinga.

·         Sjálfshjálparsamtök.   

·         Félagsskapur.

·         Upplýsingagátt.

Og við:

·         Stöndum vörð um hagsmuni einstaklingsins.

·         Vinnum jafnt að hagsmunum allra blindra og sjónskertra á öllu landinu. 

3.Hvað gerum við? – Niðurstöður hópa

Hér fara á eftir niðurstöður hópa varðandi síðari hluta spurningarinnar, þ.e. „hvað gerum við?“. 

1)    Valdefling

·         Styðja félagsmenn til sjálfstæðis.

·         Eflum einstaklinginn.

·         Vera virkir þátttakendur í samfélaginu og lifa innihaldsríku og ábyrgu lífi.

 

2)    Stuðningur

·         Sjálfshjálparhópur.

·         Félagsráðgjafi.

·         Stuðningshópur 30+ sbr. Ungblind.

 

3)    Þjónusta

·         Við veitum félagsmönnum okkar góða þjónustu.

·         Veitum fræðslu og þjónustu.

·         Fylgjumst með nýjungum. Innleiðum nýja tækni.

·         Net / samskiptamiðlaherferð. Nýta til að klára mál.

·         Tvær heimsóknir frá skrifstofu og félagi á ári út á land.

 

4)    Félagið og félagsstarf

·         Verndun mannorðs félagsins.

·         Skipuleggjum félagsstarf.

·         Útvíkka / opna félagið.

·         Flokka félagsmenn eftir búsetu, aðstæðum, þörfum, óskum og virkni.  Nota upplýsingarnar til að virkja félaga sem nú eru óvirkir.

 

5)    Barátta

·         Við verjum og berjumst fyrir kjörorðum félagsins. 

·         Berjumst fyrir réttindum.

·         Vinnum að aðgengismálum.

·         Umferðarljós – fleiri hljóðmerki.

·         Fjáröflun.

·         Auka vitund almennings um hlutverk og starfsemi félagsins.

 

 

4.Nánari umfjöllun

Hér tekur við nánari umfjöllun um þau málefni sem voru til umræðu í hópum á Stefnumótinu, út frá spurningunni í fyrri hlutanum, „Hver erum við og hvað gerum við?“

Málefnum er skipt í kafla og undirkafla, eftir því sem við á.  

 

1)    Hlutverk og áherslur

Við styrkjum sjálfstæði einstaklingsins til að lifa innihaldsríku lífi og hafa áhrif á samfélagið

Við erum hagsmuna- og mannréttindasamtök blindra og sjónskertra, sem vinna jafnt að hagsmunum allra blindra og sjónskertra á landinu, sögðu þátttakendur.  Félagið berst fyrir félagsmenn, í atvinnu- og menntamálum sérstaklega og vinnur að jafnrétti á atvinnumarkaði.

Með starfsemi sinni stuðlar Blindrafélagið að því að félagsmenn þekkist innbyrðis.  Félagið stendur fyrir þjónustu, jafningjafræðslu og félagsstarfi og er jafnframt fyrirtæki, vinnustaður og heimili margra blindra og sjónskertra einstaklinga.

Við styrkjum sjálfstæði einstaklingsins til að lifa innihaldsríku lífi og hafa áhrif á samfélagið.

Blindrafélagið er sterkt félag, sem nýtur virðingar og hefur gott orðspor og jákvæða ímynd í samfélaginu.  Mikilvægt er að standa vörð um þetta.

 

2)    Barátta  

Eflum samfélagslegt aðgengi með öflugri mannréttindabaráttu

Blindrafélagið er skjaldborg, sem berst fyrir jafnrétti, félagslegu öryggi félagsmanna, aðgengi að umhverfi og samfélagi og öðrum mannréttindum.  Baráttan varðar allar athafnir daglegs lífs og snýst á stundum um það að verja það sem þegar hefur áunnist. 

Sem dæmi um hluti sem skipta máli varðandi aðgengi blindra eru gönguljós.  Í Reykjavík eru 143 gönguljós.  Oft er ekki kveikt á þeim fyrr en klukkan níu að morgni.  Um 40% ljósanna eru virk með hljóði.  Kostnaður við að bæta við hljóðinu, er um ein milljón fyrir hvert ljós.  Í hverfi blindra (Hlíðunum), beittu íbúasamtökin sér fyrir því að hljóðið var lækkað!  Fleiri verkefni má nefna, s.s. að aðlaga hraðbanka og að Ísland fullgildi Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Aðstöðumunur birtist víða.  Blindur eða sjónskertur kaupir síma á hundrað þúsund krónur en notar svo einungis tvö atriði.

Því miður er lítill hvati til vinnu fyrir manneskju á örorkubótum, því um 70 – 75% teknanna fara í skatt.  Varpað var fram þeirri spurningu hvort ef til vill þurfi að vinna markvisst að því að rækta tengsl við embættismenn.

3)    Starfshættir

Við viljum vera lýðræðislegt og opið félag

Mikilvægt er að byggja upp félagið, vinna saman og hætta að berjast innbyrðis.  Leggjum áherslu á að sameina félagsmenn eftir undangengin átök.  Horfumst í augu við þau til að byggja upp heilbrigt félag.   

Horfum á það sem sameinar okkur og leggjum áherslu á að ná betur saman á jákvæðan hátt.  Hlustað verði á öll sjónarmið og hugað að valddreifingu og auknu gagnsæi.  Blindrafélagið verði samtök þar sem einelti þekkist ekki og allir eigi sömu möguleika á þjónustu óháð tengslum inn í stjórn.  Mikilvægt er að stjórnendur njóti víðtæks trausts. 

Almennt er ánægja með starfið, en samt má bæta ýmislegt.  Starfsemin verði hnitmiðaðri og verksvið skýr.  Þörf er á styrkingu við landsbyggðina. 

Hugað verði að samstarfi við önnur félagasamtök, m.a. ÖBÍ, sérstaklega í sambandi við málefni barna og fræðslu til almennings.

Gerum hugmyndir að veruleika!  Oft er talað um hlutina en ekkert gert.  Hvernig getum við vakið athygli á málum? Taka kannski eitt mál fyrir í einu.  Setja mál í sérstaka ramma og hafa markvissa umræðu.  Halda mætti samskiptanámskeið, til að þjálfa okkur í rökræðum.

Höldum áfram með stefnumótunarvinnu. ALLTAF.  Breytingarnar gerast hægt og mikilvægt að almennur félagsmaður fái að fylgjast með.

 

4)    Sjálfshjálp og stuðningur

Styðjum til sjálfstæðis og valdeflingar

Blindrafélagið veitir félagsmönnum sínum skjól og stuðning til sjálfstæðis.  Mikilvægt er að rjúfa einangrun og hjálpa þeim sem eru einmana.  Vantar e.t.v. aukna áherslu á andlegan stuðning og sálgæslu? Samkomur eru góðar en svo er maður einn í sinni íbúð.  Nefnt var að þörf væri fyrir gestaþjóna.

Flestum eru fyrstu skrefin inn í félagið erfið og jafningjastuðningur er ómetanlegur.  Auka þarf stuðning við þá sem eru að missa sjónina og veita þeim hjálp við að vinna úr áfallinu.

Ábyrgðin er þó ekki einungis félagsins, við félagsmenn þurfum að gera í því að biðja um hluti og leita eftir stuðningi.

 

a)      Faglegur stuðningur

Þörf fyrir faglegan stuðning er mikil og hann mætti bæta enn frekar.  Þar má nefna meiri stuðning við nám og störf og að hjálpa félagsmönnum að komast út á vinnumarkaðinn.  Einnig félagsráðgjafa til að upplýsa félagsmenn um réttindi og hjálpa fólki til sjálfshjálpar.  Félagið mætti vera með á sínum snærum aðgengisfulltrúa og e.t.v. skaffa þjónustu sálfræðinga.  Huga þarf sérstaklega að þeim sem eru að missa sjónina. 

 

b)      Trúnaðarmannakerfið

Trúnaðarmannakerfi félagsins er gott og um það þarf að standa vörð.  Það má þó efla enn frekar, t.d. er þar enginn karlmaður og hringja mætti oftar í félagsmenn.

 

c)      Landsbyggðin

Mikilvægt er að styrkja tengslin við félagana á landsbyggðinni.  Ein leið gæti verið sú að fulltrúar frá félaginu ferðist um landið og kynni félagið.  Til dæmis að tvisvar á ári færi fólk úr félaginu og frá skrifstofu, til að setjast niður með deildum úti á landi.  Einnig mætti skipa ákveðinn tengilið við landsbyggðina.

 

d)      Menntun

Rætt var um skólagöngu og kom fram að nú eru 34 blindir og sjónskertir í framhaldsskóla og háskóla.

Taka þarf umræðu um skólagöngu barna og kryfja ýmis mál innan þess. 

 

e)      Atvinnuþátttaka

Atvinnuþátttaka er í lamasessi en meiri en á hinum Norðurlöndunum.  Það er undir einstaklingi komið og vinnuveitanda. 

 

f)       Jafningjafræðsla og –stuðningur

Jafningjastuðningur innan Blindrafélagsins er gríðarlega mikilvægur.  Þar er verið að virkja félagsmenn til samhjálpar og til að aðstoða aðra.  Þannig gefst fólki tækifæri til að hitta aðra sem er svipað ástatt fyrir, sjónskerta á svipuðum stað í ferlinu. 

Fram komu hugmyndir um fleira af sama toga, t.d. að Ungblind haldi umræðufund / -kvöld um það að koma nýr inn í Blindrafélagið og taka þar alls konar vinkla.  Einnig væri gott að stofna sjálfshjálparhóp og þá sérstaklega fyrir 30 ára og eldri og var m.a. rætt um evrópska Visal verkefnið í tengslum við stuðning við eldri félaga.   

 

g)      Þjónustu- og þekkingarmiðstöð

Tilkoma Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar olli byltingu í málefnum blindra og sjónskertra.  En þarf hún að vera sýnilegri?  Auka mætti tenginu hennar við félagið og nota hana í að ná betur til félaganna.  Einnig að auka samskipti milli miðstöðvarinnar og trúnaðarmannakerfisins. 

 

h)      Upplýsinga- og tæknimál

Upplýsinga- og tæknimál snúast annars vegar um upplýsingamiðlun frá félaginu og hins vegar um að efla getu notenda til að nýta sér tæknina.  Það þarf að veita upplýsingar á því formi sem hentar hverjum og einum, t.d. fjölmiðlun, vefvarp, valdar greinar og blindlist.  Leggja þarf áherslu á aukið upplýsingaaðgengi, s.s. bæta heimasíðu félagsins, (með sérstaka áherslu á skemmtilegar fréttir).  Jafnframt mætti miðla fundum beint til félagsmanna og fjölga greinum inni á vefvarpinu.  Yngra fólkið er tæknivæddast og það er flest á höfuðborgarsvæðinu. 

Margir hafa þörf fyrir að auka þekkingu sína á tölvu- og tæknimálum og mætti félagið standa fyrir kennslu, eða til dæmis tæknikvöldum einu sinni í mánuði á jafningjagrundvelli.  Jafnframt þarf að hafa í huga að meðalaldur félagsmanna er hár og flestir eru ekki með tölvupóst.  Í því tilfelli þarf að hringja til að ná til fólks.

 

5)    Þjónusta

Blindrafélagið og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð eru hjarta þjónustunnar við blinda og sjónskerta Íslendinga

Blindrafélagið er blómlegt félag og veitir góða þjónustu fyrir félagsmenn.  Þar má meðal annars nefna vefverslun, hjálpartæki, ferðaþjónustu, vefvarpið og trúnaðarmenn.  Ánægja er með þjónustu hjá félaginu og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni.  Viðmót á skrifstofu er gott.

Ekki er niðurgreiðsla fyrir alla leigubíla.  Stefnt verði að því að í framtíðinni verði ferðaþjónusta eins á öllu landinu.  Auka mætti tölvuþjónustu og kynningu á hjálpartækjum.  Standa þarf vörð um 5. hæðina og Blindrabókasafnið. 

Vantar eitthvað?  Það er lítið, ef maður ber sig eftir því.

 

6)    Fræðsla

Víðtæk fræðsla miðuð að þörfum ólíkra hópa

Blindrafélagið veitir félagsmönnum nauðsynlega fræðslu.  Auka mætti jafningjafræðslu og þannig auka og/eða auðvelda okkur að mennta okkur og miðla á milli okkar.

Vantar fræðslu og stuðning fyrir nýblinda?  Það mætti gera með stuðningshópi félagsmanna.  Nú eru starfandi 67+ og Ungblind.  Vantar fleiri hópa?

Vantar fræðslunámskeið?  Þörf er fyrir námskeið fyrir aðstandendur, sérstaklega nýblindra námskeið með fjölskyldu.  Á félagið að beita sér fyrir þessu eða standa fyrir slíkum námskeiðum?

Eitt af hlutverkum félagsins er að fylgjast með þróun tækni og lækninga og miðla þeirri þekkingu áfram.

Almennt er áhugi á að auka fræðslu; jafningja, til okkar sjálfra og fræðslu m.a. til skóla og foreldra. 

 

7)    Félagsstarf

Virkjum sem flesta félagsmenn til þátttöku

Blindrafélagið er vettvangur fyrir félagsskap, sem er eitt af dýrmætum hlutverkum félagsins. 

Hugsjónin er að reyna að virkja sem flesta félagsmenn til þátttöku innan félagsins og um leið að virða margbreytileikann, að ekki eru allir eins.  Æskilegt er að ná betur til þeirra félaga sem eru óvirkir og til yngri félaga, ásamt því að rækta betur tengslin við félaga á landsbyggðinni.   

Spurning er hvernig ná má betur til sem flestra félagsmanna til að auðvelda þeim þátttöku.  Sem dæmi má nefna að senda kjörgögn heim eða gera aðgengileg með rafrænum hætti.  Nýta mætti fjarfundabúnað oftar.  Mörgum er það erfitt skref að ganga í félagið og e.t.v. mætti finna leiðir til að létta fólki það.  Fram kom að bæta megi  blindlist.  

Í 4. grein laga félagsins segir m.a. að hver sá geti orðið félagsmaður, sem hefur sjón sem nemur 6/18 eða minna, eða hefur sjóngalla eða augnsjúkdóm sem jafna má við greinda sjónskerðingu sem og forráðamenn ólögráða barna sem uppfylla sömu skilyrði. 

Þessi skilgreining markar í raun rammann um starfsemi félagsins.  Þátttakendur veltu fyrir sér hvort þörf sé á að víkka þessa skilgreiningu og opna félagið fólki sem býr við hrakandi sjón, líkt og t.d. í Svíþjóð.  Það byði viðkomandi upp á aðlögun og myndi um leið skila félagsgjöldum. 

 

8)    Almannatengsl

Vera sýnileg! Á okkar forsendum.  Að við séum ekki blinda fólkið – við erum manneskjur!

Blindrafélagið býr við velvilja í íslensku samfélagi.  Hins vegar byggir sá velvilji – og um leið fjárhagslegir styrkir - að einhverju leyti á þeirri trú að blindir og sjónskertir séu vanmáttugri en þeir eru í raun.  Mikilvægt er berjast gegn þessu með kynningu og fræðslu um félagið og félagsmenn. 

Félagið á samleið með fleirum og gæti farið í sameiginlegt átak, t.d. með Öryrkjabandalagi Íslands.  Huga mætti að fræðslu í skólum, t.d. tengt lífsleikni.  Umfram allt þarf að auka sýnileika út frá manneskjunum en ekki fötluninni. 

 

5.Hverju eiga siðareglur að breyta? – Niðurstöður hópa

Siðareglur skulu taka mið af ábendingum Sannleiksnefndar

Í umræðunni um siðareglur komu þátttakendur á Stefnumótinu víða við og því eru í köflunum hér á eftir einhver atriði sem sem varða verklag eða lög félagsins, í bland við það sem viðkemur siðareglum.

 

1)    Markmið siðareglna

Siðareglur skulu varða alla starfsemi félagsins og taka mið af ábendingum Sannleiksnefndar.

Samskiptareglur, heiðarlegar og nærgætni.

Hagsmunir félagsins séu númer eitt.  Siðareglur tryggi það.

Setja mörk og virða þau.

Siðareglur eru vörður um vegferð félagsins í framtíðinni. 


 

Siðareglur til að vinna eftir veita:

-          Aðhald.

-          Trúnað.

-          Gegnsæi.

-          Aðgerðaáætlun.

 

2)    Framkvæmd

Aðgerðar / viðbragðsáætlanir.

Skýrar reglur um styrkveitingar.

 

3)    Leiðtogar

Gæta þess að þeir sem kjörnir eru til forystu eða ráðnir starfsmenn stigi ekki út fyrir ramma góðs siðferðis og virði gildi félagsins.

Skera á hagsmunatengsl stjórnarmanna og starfsmanna.

Hagsmunaskráning stjórnarmanna.

Félagsmenn í trúnaðarstöðum upplýsi um hagsmunatengsl sín. 

 

4)    Traust

Stuðla að gagnkvæmu trausti milli félagsmanna og stjórnenda.

Mikilvægast að koma í veg fyrir spillingu og auka trúverðugleika.

 

5)    Jöfn tækifæri

Til að tryggja lýðræði innan félagasamtaka.  Að skapa jafnrétti til að menn geti unnið að hugðarefnum sínum innan félagsins.

 

6.Nánari umfjöllun

Hér tekur við nánari umfjöllun um þau málefni sem voru til umræðu í hópum á Stefnumótinu, út frá spurningunni, „Hverju eiga siðareglur að breyta?“

Málefnum er skipt í kafla og undirkafla, eftir því sem við á.  


 

 

1)    Almennt um siðareglur

Það er ekki nóg að setja siðareglur, aðalatriðið er að það verði farið eftir þeim

Á Stefnumótinu kom fram afgerandi stuðningur við þá niðurstöðu aðalfundar í mars 2016, að Blindrafélagið setji sér siðareglur.  Vísað var til gilda félagsins, en að það þurfi dýpri siðareglur.  Siðareglur eiga að bæta gagnkvæma virðingu og trúnað, stuðla að heiðarleika og skapa trúverðugleika.

Í siðareglum séu hagsmunir félagsins hafðir í fyrirrúmi.  Þær snúist m.a. um samskipti og mörk, hvað má leyfa sér og hvað á ekki að þola öðrum. Siðareglur eru leiðbeinandi en ákveðnar.  Ef menn brjóta þær eiga þeir að taka afleiðingum.  Þær eru vörn fyrir félagsmenn og stuðla að gagnkvæmu trausti milli félagsmanna og stjórnar.

Gæta þarf þess að þeir sem kjörnir eru til forystu eða komi fram fyrir hönd eða starfa fyrir Blindrafélagið stígi ekki út fyrir ramma góðs siðferðis og virði gildi félagsins.

Mikilvægt er að það ríki sátt við siðareglurnar.  Það er svo ekki nóg að setja siðareglur, aðalatriðið er að fara eftir þeim.

 

a)      Tilefni beitingar

Þau atriði sem helst voru nefnd sem tilefni beitingar siðareglna voru áföll, misbeiting, kynferðisbrot, einelti og mismunun á fólki.  Þær taki á rógburði og illu umtali í ræðu og riti og vinni gegn spillingu.

 

2)    Rammi fyrir siðareglur

Siðareglur þurfa að vera skýrar og gagnsæjar

Siðareglur þurfa að vera skýrar og gagnsæjar þannig að allir geti farið eftir þeim.  Þær þurfa jafnframt að auka gagnsæi innan félagsins og  tryggja lýðræði.

Siðareglur skulu varða alla starfsemi félagsins og taka mið af ábendingum Sannleiksnefndar.  Gætt verði að samræmi milli siðareglnanna og laga félagsins þannig að hvort styðji annað. 

Varpað var fram þeirri spurningu hvar setja skuli mörkin í gerð siðareglna, hversu vítt eða þröngt skuli horfa.  Siðareglur þurfi að vera skýrar án þess að vera of heftandi.  Þær eiga að vera leiðbeinandi og um leið bindandi og samkvæmt lögum og reglum.

 

3)    Siðareglur - innihald

Siðareglur leiða af sér ákveðið verklag

Í umræðu um siðareglur var komið inn á ýmis málefni sem þær ættu að taka til.  

 

a)      Kjörgengi, kosningar og starfstími í stjórn

Rætt var um einhverskonar sólarlagsákvæði varðandi hversu lengi stjórnarmenn og formaður sitji í stjórn og nefndi einn hópur sex ár í því sambandi.

Mikilvægt er að auka gagnsæi við kosningar, reglur um kosningar séu vel kynntar og jafnvel þurfi að hafa ákvæði um kosningabaráttu og kosningar í siðareglunum.  Stuðla ætti að hvatningu fyrir konur til að gefa kost á sér í stjórn.

 

b)      Hagsmunir og hagsmunaskráning

Mikilvægt er að þeir sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið, upplýsi um hagsmunatengsl.  Ef til vill þarf að skerpa á reglum um vanhæfi við afgreiðslu mála á vettvangi stjórnar.  Fullur trúnaður ríki innan stjórnar við félagsmenn.

Ein leið til að lágmarka hagsmunaárekstra er að launaðir starfsmenn sitji ekki í stjórn en það getur stangast á við möguleika fólks til að vinna að hugðarefnum sínum innan félagsins.   

 

c)      Meðferð fjármuna

Í einhverjum tilvikum geta komið upp siðferðileg álitamál sem tengjast meðferð fjármuna.  Sem dæmi má nefna hvað sé viðeigandi að nota gjafafé í, kaup og veitingu áfengis, utanlandsferðir og móttöku gjafa. Einnig þurfi að vera skýrar reglur um styrkveitingar, hve oft er hægt að sækja um og hverjir úthluta.

 

d)      Samskipti og samstarf

Siðareglur eiga að bæta samvinnu innan félags og stjórnarmanna.  Þar má nefna samskipti, t.d. á fundum. 

e)      Ráðningar og starfsmannahald

Rætt var um ráðningar og kallað eftir skýru vinnulagi.  Talsverður stuðningur er við það að störf séu auglýst.   Hugsanlega megi auglýsa störf fyrst innan félagsins og leitast við að ráða frekar sjónskerta / blinda, en engu að síður eigi hæfileikar að ráða.  Æskilegt er að kynjahlutföll séu jöfn. 

Skilgreina þarf hlutverk starfsmanna betur og markvissast að þeir hafi sérþekkingu á einhverju sviði.

 

f)       Verklag og viðbragð

Siðareglur leiða af sér ákveðið verklag.  Hvað gerist þegar þær eru brotnar?  Þá er unnið eftir aðgerðaáætlun eða viðbragðsáætlun þannig að málin fari í réttan farveg.  Verklagsreglur og viðbragðsáætlanir þurfa að vera hluti af því hvernig við vinnum.  Þannig að ef upp koma atvik eins og síðastliðið haust þá er til áætlun um hvað á að gera – jafnvel fagaðilar sem búið er að semja við fyrirfram. 

Virkja ætti kynferðisbrotaáætlun og byggja upp eineltisáætlun og að innan félagsins starfi teymi sem tekur á slíkum málum. 

Handbók þarf að liggja fyrir og getur það átt við viðbrögð við kynferðisbrotum, einelti og brotum á siðareglum. 

 

4)    Árangur – inn á við og út á við

Siðareglur eru vörður um vegferð félagsins í framtíðinni

Siðareglur eiga að auka trú á félagið og breyta ímynd þess bæði inn á við og út á við.  Með þeim er verið að gæta heiðurs og hagsmuna félags og félagsmanna og þær eiga að stuðla að jöfnuði.
Þær skapa öryggi fyrir félagsmenn gagnvart stjórnarfari og öðrum félagsmönnum.  Virðing og gagnkvæmt traust, eykst með vönduðum siðareglum.

Siðareglur veita aðhald og eru hluti af því að félagið hafi ákveðna stefnu sem félagsmenn þekkja og hegða sér eftir.  Skilaboðin þurfa að vera þau sömu sem koma frá félaginu, að upplýsingaflæði til almennings sé samræmt.  Það geta verið margar raddir út á við en með sameiginleg markmið félagsins að leiðarljósi svo það sé ljóst að við séum heild en ekki sundurleitur hópur.

Siðareglur geta stuðlað að samheldni og jákvæðni og tryggt lýðræði innan félagasamtaka.
Ef maður fer eftir siðareglum þá er maður siðlegur!

 

7.Að lokum

Jarðvegur fyrir breytingar

Með Stefnumótinu var sett á dagskrá sú vinna sem stjórn Blindrafélagsins var falin á aðalfundi í mars 2016, að huga að breytingum á lögum og verkferlum og gerð siðareglna fyrir félagið. 

Vel var mætt til Stefnumótsins, umræður voru líflegar og ríkti jákvæður andi yfir hópnum.  Hér hefur verið gert grein fyrir helstu skilaboðum þátttakenda. 

Stjórn mun nú vinna úr þessum skilaboðum og taka ákvörðun um næstu skref.  Það ríkir greinilega ánægja með mjög margt í starfsemi Blindrafélagsins.  Skilaboð Stefnumótsins eru ekki um byltingu, heldur breytingar sem styrkja siðferðilegan grunn félagsins.  Og félagsmenn hafa greinilega væntingar til þess að einhverjar breytingar verði lagðar fyrir næsta aðalfund. 

Þetta eru stór viðfangsefni og því er mikilvægt nú að forgangsraða út frá því hvaða breytingar eru brýnar, til að ekki verði færst of mikið í fang.  Ferlið hófst með samtali við félagsmenn og vert að skoða hvernig aðkoma þeirra gæti verið í framhaldinu.  Samtalið miði að því að draga fram sem flest sjónarmið og gagnkvæman skilning, þar sem þess er kostur.  Það er kannski ekki raunhæft að „öll dýrin í skóginum“ geti verið vinir, eins og einhver orðaði það á Stefnumótinu, en það skiptir máli fyrir stjórn og fyrir félagið sem heild, að sem mest sátt ríki um þær breytingar sem félagið vill vinna að.

Að lokum þakkar undirrituð fyrir ánægjulegt Stefnumót og gott samstarf og óskar stjórn góðs gengis í framhaldinu. 

 

Sigurborg Kr. Hannesdóttir

ILDI þjónusta og ráðgjöf 

 

8.Svipmyndir

Hér má svo sjá nokkrar svipmyndir frá Stefnumótinu.