Leiðsöguhundar fyrir blinda mega vera í fjölbýlishúsum

Lögum um gæludýrahald breytt

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um gæludýrahald í fjölbýlishúsum. Hér eftir verður hunda- og kattahald í fjölbýlishúsum háð samþykki tveggja þriðju hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang.

Áður þurfti samþykki allra íbúa fjölbýlishúsa en breytingartillaga Helga Hjörvar gekk út á að aðeins þyrfti samþykki tveggja þriðju hluta íbúa.

Tillagan var samþykkt með þrjátíu og sjö atkvæðum gegn þremur, en Katrín Jakobsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Vigdís Hauksdóttir greiddu atkvæði gegn tillögunni. Þá var einnig samþykkt að sé íbúi blindur eða fatlaður á annan máta þannig að hann þurfi á sérþjálfuðum leiðsögu- eða hjálparhundi að halda sé honum heimilt að halda slíkan hund óháð öðrum íbúum.

Þó skuli kærunefnd húsamála leita lausna á málum ef íbúi fjölbýlishúss er með ofnæmi fyrir hundum eða köttum á svo háu stigi að sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund sé óbærilegt

Frétt af www.ruv.is