Í dag á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar fögnum við degi íslenskrar tungu. Að því tilefni heiðrum við minningu hans og allra þeirra sem hafa með sínum hætti lagt sitt af mörkum til að varðveita og auðga tungumálið og um leið viðhalda því og skapa því lifandi sess. Jafnframt er dagurinn kjörið tækifæri til að vekja athygli á áskorunum sem blasa við ef við viljum varðveita íslenska tungu um ókomin ár sem lifandi tungumál og frjóan samskiptamáta. Á íslensku má alltaf finna svar segir í kvæði Þórarins Eldjárn en það verður ekki raunin ef við fylgjum því ekki eftir að íslenska fái rými í nútíma tækni og tækni komandi kynslóða. Þegar horft er til þessa samspils tækni og tungu má svo sannarlega taka undir varnaðarorð Þórarins um „að gæta hennar gildir hér og nú, það gerir engin nema ég og þú.“
Íslenskan hefur oft verið talin af, eða í minnsta kosti í mikilli hættu. Hvort sem það var vegna áhrifa dönsku eða kanasjónvarps, en með markvissri stefnu og stöðugri endurnýjun hefur okkur tekist að viðhalda móðumálinu þrátt fyrir oft erfiðar aðstæður.
Nú er ógnin tölvutæknin. Öll þessi tæki sem einfalda líf okkar og gera okkur kleift að gera nánast hvað sem er, hvenær sem er bera með sér ensku og allt stefnir í að í framtíðinni munum við aðeins geta nýtt tæknina á grundvelli hennar.
Þar með er ekki sagt að það sé öll nótt úti með ástkæra ylhýra, greinarhöfundur veit að það þarf meira til þess að koma því fyrir kattanef. Dagurinn í dag sýnir okkur að móðurmál okkar á marga bakhjarla og verður seint tortímt. En við eigum hinsvegar á hættu að tæknin og tungumál hennar valdi stéttaskiptingu meðal Íslendinga og aðgengi sumra verði takmarkað á meðan aðgengi annara muni aukast.
Í fötlunarsamfélaginu er mikið talað um almennar lausnir sem eiga að leysa af hinar sértæku. Við sjáum þetta til að mynda með snjallsímana, í stað þess að þurfa að kaupa sérstakan síma vegna fötlunar geta margir fatlaðir í dag nýtt sér lausnir á markaði sem innihalda aðgengislausnir. Þegar vörurnar frá Apple komu á markaðinn urðu vatnaskil og blindir og sjónskertir um allan heim gátu nýtt sér samskonar síma og tölvur og aðrir með því að virkja aðgengisstillingar. En ekki við hér á Íslandi. Apple fyrirtækið hefur kosið að láta ekki þýða viðmót sitt á íslensku og inniheldur ekki íslenskan talgervil. Aðrir framleiðendur hafa staðið sig mun betur í að aðlaga vörur sínar að íslenskum markaði og eiga mikið hrós skilið fyrir það. En þrátt fyrir það sjáum við að vörurnar frá Apple eins og til dæmis Ipad verða fyrir valinu í menntakerfinu okkar, þrátt fyrir að standast ekki þessa grundvallarkröfu: að vera aðgengileg á íslensku. Hér vantar skýra stefnu frá menntamálayfirvöldum.
Þá horfum við einnig til þeirra þróunar sem á sér stað á sviði velferðartækni. Hækkandi meðalaldur og stórar kynslóðir ellilífeyrisþega um allan heim hafa kallað á endurskipulag og nýja hugsun á sviði velferðarþjónustu. Margir horfa til þess að snjalltækni geti bætt þjónustuna verulega, en verður hún aðgengileg á íslensku?
Í dag fögnum við íslenskri tungu og líkt og ég nefndi hér að ofan tel ég enga ástæðu til að örvænta um framtíð hennar. Við sem erum þeirra lukku aðnjótandi að þekkja unglinga dagsins í dag vitum að færni þeirra á öðrum tungumálum þarf ekki endilega að gera þau ófær um að tala íslensku. En þau þurfa að sjá tilganginn með henni. Ef við eigum að tryggja jafnt aðgengi að upplýsingum og þjónustu þá þurfum við að tryggja stöðu móðurmálsins okkar. Annars munu þeir hópar sem standa höllum fæti í samfélaginu eiga á hættu að vera skipað sæti á öðru farrými upplýsingabyltingarinnar.
Sigþór U. Hallfreðsson
formaður Blindrafélagsins