Dómurum ferðaþjónustu fatlaðra og skyldur sveitarfélaga

Dómur hefur fallið sem staðfestir ríkar skyldur sveitarfélaga til að veita fötluðum einstaklingum ferðaþjónustu sem gerir þeim kleift að stunda atvinnu og tómstundir. Þá skyldu hafa hins vegar nokkur sveitarfélög vanrækt. Við slíkt verður ekki unað enda munu fatlaðir ekki sætta sig við að mannréttindi þeirra séu virt að vettugi. Það verður því að teljast líklegt að sá dómur sem hér um ræðir sé einungis sá fyrsti í röð marga ef sveitarfélög bæta ekki sitt ráð.  Enn eins og kunnugt er þá á Blindrafélagið nú í deilu við Kópavogsbæ um hvort að útfærsla Kópavogsbæjar ferðaþjónustu fatlaðra uppfyllir skilyrði laga og mannréttindasamninga.

Þann 9. nóvember kvað Héraðsdómur Suðurlands upp dómi í máli E-1190/2009. Í málinu var tekist á um skyldur sveitarfélags samkvæmt 35. gr. laga um málefni fatlaðra. Í umræddri lagagrein kemur fram að sveitarfélög skuli gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu og sé markmið ferðaþjónustu fatlaðra að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.  Í málinu taldi Grímsnes- og Grafningshreppur sig ekki skuldbundin af umræddu ákvæði m.a. þar sem að þjónustusamningur væri í gildi á milli Sólheima og Félagsmálaráðuneytisins en hreppurinn taldi að skv. honum væru Sólheimar skuldbundnir til að veita umrædda þjónustu. Dómstóllinn hafnaði hins vegar þessari málsástæðu og benti á að félagsmálaráðuneytið hefði þegar gefið út nokkur álit vegna ágreinings um framkvæmd ferðaþjónustu stefnda fyrir fatlaða íbúa sveitarfélagsins sem búa að Sólheimum.  Í þeim álitum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að það væri sveitarfélagið sem bæri skylda til þess að veita íbúunum ferðaþjónustu í samræmi við ákvæði 35. gr. laga um málefni fatlaðra.  Dómstóllinn ítrekaði í niðurstöðu sinni að staðfest hafi verið af hálfu ráðuneytisins að Sólheimar fái ekki greiðslur úr ríkissjóði til að standa straum af þeirri ferðaþjónustu sem sveitarfélagið hafi lögum samkvæmt átt að inna af hendi í þágu fatlaðra.  Héraðsdómur taldi óumdeilt er að stefnandi málsins væri fatlaður einstaklingur og samkvæmt gögnum málsins væri þjónustuþörf hennar yfir meðallagi og færi hún aðeins ferða sinna með sérþjónustu.  Dómstóllinn staðfesti að samkvæmt 35. gr. laga um málefni fatlaðra hvíldi sú skylda á sveitarfélögum að gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu sem gerði þeim kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.   Var það niðurstaða dómstólsins að stefnandi í málinu hafi sökum fötlunar sinnar átt rétt á slíkri þjónustu og að ekki hafi verið sýnt fram á að sveitarfélagið hafi verið leyst undan þeirri skyldu að standa straum af kostnaði af þeim sökum. Var krafa stefnanda um viðurkenningu á rétti sínum til umræddrar þjónustu því tekin til greina.

Stefnandi gerði einnig fjárkröfu vegna einnar ferðar sem hún fór til Selfoss vegna persónulegra erinda og hljóðaði krafan uppá 8000 kr. Ekkert kom hins vegar fram í gögnum málsins um hvaða erindi stefnandi átti á Selfoss. Dómstóllinn taldi því að stefnanda hefði ekki tekist að sýna fram á að umrædd ferð félli undir umræddar skyldur sveitarfélagsins. Var sveitarfélagið því sýknað af þessari kröfu stefnanda.  Gera má ráð fyrir að raunin hefði verið önnur ef tekist hefði að sanna að umrædd ferð væri verið þess eðlis að hún hefði félli undir skyldur sveitarfélagsins skv. 35. gr. um málefni fatlaðra.