Sala hafin á dagatali Blindrafélagsins fyrir árið 2015
Dagatal þetta er gefið út af Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi. Tilgangurinn með útgáfu dagatalsins er að fjármagna leiðsöguhunda fyrir blinda einstaklinga.
Á Íslandi eru einungis starfandi 5 leiðsöguhundar fyrir blinda fyrir tilstuðlan Blindrafélagsins og er þörf fyrir mun fleiri. Þjálfun leiðsöguhunds fyrir blindan einstakling er mjög sérhæfð og tímafrek.
Hver leiðsöguhundur getur unnið á bilinu 8-10 ár og allan þann tíma, á hverjum einasta degi, bætir hundurinn lífsgæði notanda síns umtalsvert.
Velunnarar Blindrafélagsins fá þetta dagatal sent til sín og um leið val um að styðja við leiðsöguhundaverkefnið í gegnum heimabankann sinn.
Dagatalið er með myndum af hinum ýmsu leiðsöguhundum þar á meðal Sebastian sem er fyrsti leiðsöguhundurinn sem er fæddur og þjálfaður að öllu leiti á Íslandi þar til hann tók til starfa á Patreksfirði sem fullgildur leiðsöguhundur. Einnig eru myndir úr sögu Blindrafélagsins í tilefni 75 ára afmælis þess.