Blindrafélagið stendur fyrir fyrsta hljóðlýsingarnámskeiðinu á Íslandi

Blindrafélagið áformar nú í haust að standa fyrir námskeiði í hljóðlýsingum (audio description). Hljóðlýsingar hafa þann tilgang að færa sjónrænar upplifanir yfir í frásögn fyrir þá sem ekki geta séð. Víða erlendis gefst þeim sem á þurfa að halda kostur á hljóðlýsingum sem gerir þeim kleyft að njóta mun betur upplifana í leikhúsum, á söfnum, í kvikmyndahúsum og við hverskonar aðrar athafnir. Hljóðlýsingar á sjónvarpsefni eru jafnframt að verða æ algengari.

Hér á landi er engin þekking eða kunnátta til staðar, svo vitað sé, hvaða eiginleikum góð hljóðlýsing þarf að vera gædd. Það er af þessum sökum, og til að þjálfa upp einstaklinga sem hafa tök þá þessu miðlunarformi, sem  Blindrafélagið hyggst bjóða upp á 3ja daga hljóðlýsingarnámskeið með frumkvöðli hljóðlýsinga í Bandaríkjunum, Joel Snyder, sem leiðbeinenda. Joel Snyder hefur yfir 30 ára reynslu af hljóðlýsingum og er jafnframt þrautreyndur leiðbeinandi.

Dagsetning hefur ekki ennþá verið ákveðin en auglýst er eftir áhugasömum þátttakendum. Meðal eiginleika sem góðir hljóðlýsendur þurfa að búa yfir er áhugi á að að vinna með og aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga, góð sjón, góð athygli, góð íslenskukunnátta, góður orðaforði, gott tímaskyn, skýr framsetning of áheyrileg rödd.

Blindrafélagið áformar að styrkja allt að 15 hæfa og áhugasama einstaklinga til að sækja þetta fyrsta hljóðlýsinganámsekið á Íslandi með verulegri niðurgreiðslu námskeiðsgjalda.

Þeir sem hljóta þjálfun sem hljóðlýsendur hér á landi mega eiga von á því að verða beðnir um að taka að sér hljóðlýsingaverkefni fyrir jafnt fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga.

Frekari upplýsingar um hljóðlýsingar má nálgast hér: www.audiodescribe.com  

Þeir sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við Kristinn hjá Blindrafélaginu í síma 525 0020 eða í tölvupóstfangið khe@blind.is