Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, gefur út 2. tölublað Víðsjár fyrir árið 2014.

Víðsjá er kynningarrit Blindrafélagsins og er því ætlað að auka þekkingu á högum blindra og sjónskertra  auk þess að veita innsýn í líf og starf félagsmanna. Viðsjá skipar lykilhlutverk í fjáröflunarmálum Blindrafélagsins en félagið þarf að afla 90% af tekjum sínum með eigin fjáröflunum til að standa undir nauðsynlegri starfsemi og þjónustu. Viðsjá kemur út tvisvar á ári, að vori og að hausti.  Upplag blaðsins er 20.000 eintök.  Þeim er dreift til félagsmanna, styrktarfélaga, bakhjarla og annarra sem stutt hafa félagið á síðastliðnum árum. Auk þess er blaðið sent til ýmissa félaga, fyrirtækja og opinberra aðila með áherslu á þá sem tengjast heilbrigðisþjónustu. 

Samkvæmt könnun Capacent sem gerð var fyrir hönd Blindrafélagsins þá lásu það um 74% þeirra sem voru á póstlista Blindrafélagins sem gerir það að verkum að um 15 þúsund manns skoðuðu blaðið.

Af lesendum voru 82% ánægðir með efnistök blaðsins sem sýnir að ritsjórnarstefna blaðsins höfðar vel til markhópsins.

 Í 75 ára afmælisblaði Blindrafélagsins má m.a. finna:

  • Afmælisávarp frá Bergvini Oddssyni , nýjum formanni Blindrafélagsins.
  • Viðtal við frú Vigdísi Finnbogadóttur, handhafa gullmerkis Blindrafélagsins.
  • Ný könnun frá Capacent mælir almenna ánægju með Blindrafélagið og stöðu þess í samfélaginu.
  • Um blinda og sjónskerta á vinnumarkaði.
  • Íslenskir vísindamenn og fagfólk sækja ráðstefnu um hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu.

Tilgangur Víðsjár er að stuðla að sem viðtækustum skilningi og stuðningi, meðal félagsmanna og almennings á:

  • Lífsgæðum og mannréttindum blinds og sjónskerts fólks á Íslandi.
  • Nýjustu rannsóknum og meðferðartilraunum á sviði augnlækninga.
  • Verkefnum sem eru á vettvangi Blindrafélagsins eða studd af félaginu og heimasíðu félagins, blind.is.

 

Stuðningur hins opinbera við starf Blindrafélagsins hefur dregist verulega saman á síðustu árum sem leiðir til þess að félagið þarf enn frekar að leita til almennings í landinu eftir stuðningi.

Nýjasta verkefni Blindrafélagsins er Vefvarp Blindrafélagsins en það er nettengd lestölva sem les upphátt í rauntíma skýringatexta í sjónvarpi, Morgunblaðið, bækur frá Hljóðbókasafni Íslands og margt fleira. Vefvarpið notar talgervilinn Karl og Dóru við upplesturinn. Ekki þarf neina tölvukunnáttu til að geta nýtt tækið. Þessi tækni hefur valdið straumhvörfum í upplýsingamiðlun til blindra og sjónskertra eldri borgara.

Á þessu ári eru 75 ár frá stofnun Blindrafélagsins. Í allan þann tíma hefur félagið barist af alefli fyrir réttindum blindra og sjónskertra og í dag er félagið í fararbroddi í jafnréttisbaráttu fatlaðra á Íslandi.