Af opnum baráttufundi Blindrafélagsins

Eins og fram hefur komið stóð Blindrafélagið fyrir opnum fundi á Grand hóteli þriðjudaginn 27. febrúar. Boðað Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstóri ávarpar baráttufund Blindra 27. febrúar 2007var til fundarins til að ræða aðgengi blindra og sjónskertra grunn- og framhaldsskólanemenda að menntakerfinu.

Í upphafi fundar bauð Ágústa Gunnarsdóttir fundarmenn velkomna, en þeir voru á milli 120 og 130 talsins. Fundarstjóri var Helgi Hjörvar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hóf umræðuna og flutti stutt ávarp. Hann sagði m.a. að borgin væri reiðubúin að taka þátt í stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar ef eftir því yrði leitað.

Þá flutti Ágústa Gunnarsdóttir, ritari, nokkur orð fyrir hönd stjórnar Blindrafélagsins. Aðalinntak þess ávarps var hvatning til menntayfirvalda að gera úrbætur eins fljótt og auðið væri og lögð áhersla á að tími framkvæmda væri upp runninn.

Þá kynnti John Harris, annar bresku sérfræðingana, skýrslu sem hann, ásamt félaga sínum, Paul Holland, unnu fyrir Blindrafélagið um stöðu mála hér á landi. Í skýrslunni er einnig að finna tillögur til úrbóta og leiðir til að framkvæma þær.

John flutti mál sitt á afar skýran og skemmtilegan hátt og sýndi m.a. glærur máli sínu til stuðnings.

Að því loknu var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir og tóku nokkrir félagsmenn til máls. Gaman var að heyra að ungt fólk var þar í meirihluta og sýndi það málinu mikinn áhuga. Umræður urðu afar líflegar og ýmsu var velt upp sem vakti athygli fundargesta.

 

 Í lokin var svo borin upp ályktun fundarins, en hana má lesa hér á síðunni. Var ályktunin einróma samþykkt og vonandi ber hún þann árangur sem til er ætlast.

Fundurinn tókst í alla staði afar vel og mættu nokkrir fjölmiðlar á staðinn.

Menntunarmál blindra og sjónskertra hafa verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum að undanförnu og vonum við að öll sú umfjöllun hafi vakið athygli manna á því aðstöðuleysi sem við búum við í þessum málum.

Baráttufundur Blindrafélagsins á Grand Hóteli 27. feb. 2007

Meðal þess sem birst hefur er viðtal við föður sjónskerts drengs í DV föstudaginn 23. febrúar. Þar lýsir hann því aðstöðuleysi sem drengurinn mátti búa við hér á landi, en fjölskyldan flutti til Lúxenburgar. Þetta viðtal mun verða á næstu Völdu greinum.

Þá hafa heyrst nokkur viðtöl í Ríkisútvarpinu, bæði á Rás 1 og Rás 2. Meðal þeirra sem rætt hefur verið við er auðvitað John Harris, Bryndís Snæbjörnsdóttir móðir tveggja blindra stúlkna, Ólafur Haraldsson framkvæmdastjóri og Ágústa Gunnarsdóttir ritari stjórnar Blindrafélagsins. Síðast en ekki síst var mjög góð umfjöllun í Kastljósi miðvikudaginn 28. febrúar þar sem viðtöl birtust við John Harris og Ingu Dóru

 

Guðmundsdóttur ásamt Ivu Marin dóttur hennar. Boðuð hefur verið áframhaldandi umfjöllun í Kastljósinu í kvöld. 1. mars.

Ljóst er að baráttu okkar fyrir úrbótum er þó hvergi nærri lokið. Brýnt er að fylgja málinu eftir, sérstaklega þar sem Alþingiskosningar eru í nánd og ríður því á að krefja ráðamenn svara.

Þeir sem þess óska geta fengið skýrsluna á því formi sem þeim best hentar.

Hægt er að fá hana á tölvutæku formi, á blindraletri, á geisladiski eða svartletri.

Hægt er að hringja á skrifstofu félagsins í síma 525 0000 og fá skýrsluna senda eða senda beiðni á netfangið blind@blind.is

 

Skýrsluna má einnig lesa hér á síðunni sjá eftirfarandi krækjur:

Skýrsla John Harris (enska).

Skýrsla John Harris (íslenska).

 

Hér er hún á PDF-formi. Ætlunin er að hún verði einnig aðgengileg á Word-formi innan tíðar.