Aðgengisprófanir Blindrafélagsins á kynningarefni stjórnmálaflokkanna fyrir Alþingiskosningarnar 30. nóvember 2024

Hvaða flokkar leggja mest upp úr aðgengismálum? Þá erum við ekki að tala um hvað þeir segja, heldur hvernig staðið er að aðgengismálum í þeirra eigin kynningarefni. Blindrafélagið hefur í samstarfi við Reykjavík Marketing framkvæmt aðgengisprófanir á kynningarefni stjórnmálaflokkanna ellefu sem bjóða fram til Alþingiskosninga 30. nóvember 2024.

Þó Blindrafélagið sé vissulega hagsmunasamtök blindra og sjónskertra á Íslandi voru prófanir einnig gerðar á þáttum sem hafa áhrif á aðra hópa, svo sem heyrnarskerta, eldri borgara, lesblinda, einstaklinga með þroskahömlun og fólk sem er ekki með íslensku sem fyrsta tungumál.

Auðvelt er að ímynda sér að ætlun stjórnmálaflokka í framboði með kynningarefni sínu sé að ná til sem flestra. Aðgengilegt efni er einmitt lykilforsenda þess að svo megi vera. Aðgengi allra er ekki tryggt með einungis stóru letri og góðri skerpu þótt það þjóni vissulega stórum hópi fólks. Fjöldi fólks ýmist sér ekki nægilega vel til lesturs eða á sökum annarra ástæðna erfitt með að lesa og myndi frekar kjósa aðrar leiðir til að innbyrða upplýsingar.

Að jafnaði má segja að ef efni uppfylli ekki aðgengiskröfur sé það óaðgengilegt einum af hverjum fimm, eða 20% fólks. Nú eru um 268.422 manns á kjörskrá fyrir komandi Alþingiskosningar. 20% af þeim fjölda eru 53.684 manns sem er sambærilegt við samanlagðan fjölda íbúa í Kópavogi og Garðabæ.

Framsetning efnis skiptir miklu máli og mikilvægi mismunandi og fjölbreyttra birtingarmynda upplýsinga er lykilatriði. Upplýsingar í textaformi án upplesturs eða í töluðu máli án textunar eða táknmálstúlkunar eru ekki aðgengilegar öllum og texti í myndformi enn síður.

Alþingi hefur nú þegar samþykkt aðgengistilskipun EES þar sem skýrt er kveðið á um ýmis atriði sem þurfa að vera í lagi til þess að efni geti talist aðgengilegt. Alþjóðlegir staðlar og aðgengistilskipun EES voru höfð til hliðsjónar við framkvæmd þessara aðgengisprófana.

Aðgengiseinkunnir eru gefnar á skalanum 1 til 10.

Þeir þættir sem metið var út frá voru:
Hvaða aðferðum var beitt við miðlun upplýsinga; talað mál, textar, myndefni, táknmál.
Val á leturgerð
Leturstærð
Skerpa (litamunur) á og við texta
Notkun einfalds máls
Textun (Subtitle)
Texti sem birtist er einnig lesinn
Táknmálstúlkun
Sjónlýsing
Hversu mikið tónlist eða önnur hljóð kunna að trufla það sem sagt er

Aðgengiseinkunnir fyrir kynningarefni flokkanna eru sem hér segir:
Flokkur fólksins 8,1
Samfylkingin 7,7
Vinstri græn 7,7
Framsóknarflokkurinn 7,3
Píratar 7,3
Viðreisn 7,3
Sjálfstæðisflokkurinn 7,2
Sósíalistaflokkur Íslands 7,1
Lýðræðisflokkurinn 7,0
Miðflokkurinn 6,3
Ábyrg framtíð 5,8

Hér má sjá meðaleinkunn flokkanna í völdum þáttum:
Val á leturgerð 8,2
Tónlist truflar ekki tal 8,2
Einfalt mál 7,3
Leturstærð 9,8
Texti lesinn 8,7
Skerpa (litamunur) 7,7

Skemmst frá því er að segja að sjónrænt aðgengi að kynningarefni flokkanna var að mestu leyti gott. Þegar horft er til aðgengi blindra með tilliti til skjálesturs var sagan önnur, textaskýringar á myndum voru nær alltaf ekki til staðar. Enginn flokkur bauð upp á táknmálastúlkun á neinu efni sem prófað var og enginn flokkur virðist vera farinn að tileinka sér sjónlýsingu í sínu kynningarefni. Þó höfðu tveir flokkar samband og óskuðu eftir upplýsingum um hvernig þau gætu gert betur í þessum málum, sem veitir á gott.

Það er von Blindrafélagsins að þessi aðgengisúttekt verði hvatning til allra þeirra sem á einhvern hátt standa að miðlun upplýsinga um að vanda til verka og leitast ævinlega við að gera betur næst en gert var síðast.

Nánari upplýsingar veitir Hlynur Þór Agnarsson, sérfræðingur í aðgengismálum hjá Reykjavík Marketing í síma 655 5554 eða á netfangið hlynur@rvkmarketing.is