Gagnlegar upplýsingar fyrir komandi kosningar

Laugardaginn 30. nóvember næstkomandi göngum við til kosninga. Það er að ýmsu að huga þegar kemur að því að greiða atkvæði. Hér verður farið yfir helstu atriði sem gott er að vita, sérstaklega fyrir blinda og sjónskerta sem e.t.v. vilja fá aðstoð við atkvæðagreiðslu.

Nauðsynlegt er að hafa með sér skilríki, t.d. ökuskírteini, vegabréf eða nafnskírteini á kjörstað. Stafræn skilríki gilda einnig.

Það má fá aðstoð við að kjósa

Allir kjósendur geta fengið aðstoð við að kjósa og þurfa ekki að gefa neinar ástæður fyrir því. Kjósandi getur komið með eigin aðstoðarmann eða fengið aðstoð frá starfsfólki kosninga.

Ef kjósandi er með eigin aðstoðarmann þá gildir eftirfarandi:

1. Aðstoðarmaður þarf að fylla út sérstakt eyðublað/yfirlýsingu.

2. Aðstoðarmaður má ekki vera frambjóðandi í kosningunum og ekki heldur maki, barn, systkini eða foreldri frambjóðanda.

3. Aðstoðarmaður má ekki aðstoða fleiri en þrjá kjósendur við sömu kosningar.

Ef kjósandi fær aðstoð við að kjósa á kjörstað stöðvar kjörstjórn alla umferð um kjördeildina á meðan kosningin fer fram til að tryggja að hún sé leynileg. Bókað er um aðstoðina í fundargerð.

Að mæta á kjörstað og kjósa

Þú þarft að hafa með þér skilríki, t.d. ökuskírteini, vegabréf eða nafnskírteini á kjörstað. Stafræn skilríki gilda einnig.

Kjörstaður er staðurinn þar sem tekið er á móti atkvæðum á kjördag. Á vef þjóðskrár má fletta því upp hvar skal kjósa. Hvert lögheimili tilheyrir vissum kjörstað, og innan kjörstaðarins eru oft deildir, sem skiptast einnig upp eftir lögheimili. Oft eru deildirnar skiptar eftir stafrófsröð gatna en á vef þjóðskrár kemur fram bæði kjörstaður og kjördeild.

Ágætt er að hafa í huga að ef þú fluttir nýlega getur verið að lögheimilið hafi enn þá verið á gamla staðnum þegar raðað var í kjördeildir svo það er vissara að kanna skráninguna.

Flettu upp þínum kjörstað eftir kennitölu á vef þjóðskrár.

Þegar þú mætir á kjörstað finnur þú leiðbeiningar um hvar þín kjördeild er staðsett. Listi með götuheitum og tilheyrandi kjördeildum er yfirleitt við innganginn, en það er líka starfsfólk sem er til í að aðstoða þig við að finna þína kjördeild.

Oft myndast raðir en það er þó misjafnt eftir tíma og fjölda í kjördeild. Það er því gott að vera búinn að ganga úr skugga um að þú sért í réttri kjördeild áður en þú kemur þér í röðina.

Kjörstjórn tekur á móti kjósendum og biður um heimilisfang og skilríki. Svo er merkt við þig á kjörskrá og þú færð afhentan kjörseðil. Hægt er að fá kjörseðil með punktaletri.

Því næst er haldið inn í kjörklefann, þar sem þú dregur fyrir eða lokar að þér og merkir við þinn framboðslista með því að skrifa X í ferning fyrir framan nafn þess framboðslista sem þú vilt kjósa.

Að því loknu ferðu út úr klefanum og setur kjörseðilinn í atkvæðakassann, fyrir utan kjörklefann.

Hverjir mega kjósa í alþingiskosningum 2024?

Íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili hér á landi.

Íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og hefur ÁTT lögheimili hér á landi á kosningarrétt í sextán ár frá því að hann flytur lögheimili af landinu. 

Eftir 16 ára búsetu erlendis skal sækja um til Þjóðskrár Íslands að vera tekinn á kjörskrá.

Erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi, og hafa ekki fengið íslenskt ríkisfang, eru ekki með kosningarétt Alþingiskosningum, við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslum.

 

Heimildir og nánari upplýsingar

Alþingiskosningar 2024 | Ísland.is

https://www.skra.is/folk/kjorskra-og-kosningar/