Farsímar eru okkur mikilvægir, það vitum við öll. Þeir sem notast við skjálestur á þessum tækjum hafa lifað í mikilli óvissu megnið af þessu ári, vitandi að þær raddir sem notaðar eru í dag myndu brátt hverfa. Unnið er hörðum höndum að smíði nýrrar lausnar fyrir skjálestur í Android snjalltækjum. Farsíminn er orðinn gífurlegt öryggistæki og því mjög mikilvægt að tryggja aðgengi að góðum og traustum talgervli, enda margir sem eiga ekki kost á að nota símann án hans.
Ekki er lengur hægt að sækja íslensku raddirnar Karl og Dóru frá IVONA fyrir Android tæki. Ekki er mögulegt að ná í raddirnar og hafa þær uppsettar á símanum sínum eins og hægt var áður.
Hins vegar er hægt að ná í forritið Símaróm til að nýta íslenskar raddir í Android tækjum en í útgáfunni sem er í boði í dag er aðeins hægt að nýta raddirnar þegar tækið er nettengt. Núverandi útgáfa af Símaróm vinnur alla vinnslu í gegnum internetið, sem þýðir að svartími raddanna getur verið mismunandi eftir því hvernig netsambandi síminn er í hverju sinni. Ef ekkert netsamband er til staðar þá virka raddirnar ekki.
Von er á nýrri útgáfu af íslenskum röddum sem bera nöfnin Álfur og Diljá og verður hægt að nota þær í Android tækjum án nettengingar. Það er þó enn ekki vitað hvenær sú útgáfa verður tilbúin fyrir notendur.
Þeir sem hafa Android tæki í dag með Karl og Dóru þegar uppsettar geta haldið áfram að nota þær. Þeim notendum sem reiða sig á skjálestur í sínum Android tækjum, ráðleggjum við að uppfæra alls ekki símana sína í Android 11, eða skipta í nýja síma fyrr en ný lausn er komin á markað.
Nýir símar geta ekki sótt Karl og Dóru og mælum við með því að þeir sem hafa þær í dag í sínum tækjum bíði með að fá sér ný Android tæki þar til ný útgáfa af Símaróm er komin út.
Blindrafélagið vill brýna fyrir öllum þeim sem reiða sig á Karl og Dóru í Android tækjunum sínum að passa vel upp á þau og ekki uppfæra stýrikerfið að svo stöddu.
Við viljum ekki að fólk lendi í aðstæðum þar sem það getur ekki notað símann sinn sökum þess að ekki er til staðar fullnægjandi talgervilslausn á íslensku án nettengingar. Aðstæður eins og að fá símtal frá lækni, foreldrar að athuga með börnin sín, símtöl í neyðarlínuna og margar fleiri verða að geta gengið vandræðalaust fyrir sig, hvar og hvenær sem er, og fólk þarf að geta treyst því að tæknin sé til staðar og virki.
Á félagsfundi Blindrafélagsins, miðvikudaginn 17. nóvember, var farið yfir stöðuna í þróun íslenskrar máltækni og er ýmislegt jákvætt að gerast þar. Gestur Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍM hópnum, Samstarfshóp fyrir íslenska máltækni, fór yfir stöðu máltækniáætlunarinnar. Gunnar Þór Örnólfsson frá Háskólanum í Reykjavík talaði um stöðuna á þróun talgervla, hvað hefur áunnist nú þegar og hvað er framundan. Katla Ásgeirsdóttir frá Miðeind kynnti Emblu, sem er mörgum orðin góðkunn. Embla er að verða sífellt betri og fjölgar þeim fyrirspurnum sem hún getur svarað. Eitt af því nýjasta er að Embla getur nú flett upp í símaskrá og gefið upplýsingar um komu- og brottfarartíma millilandaflugs. Einnig er komin lausn frá fyrirtækinu Tiro sem umbreytir talaðri íslensku í texta og á vef Tiro er meðal annars spilari þar sem sjá má rauntíma útsendingu RÚV með sjálfvirkri textun.
Þó við séum komin langa leið með ýmis verkefni, þá erum við ekki komin í land og þegar núverandi máltækniáætlun rennur sitt skeið í október 2022, verðum við það að öllum líkindum ekki heldur. Það verður því að tryggja áframhaldandi vinnu í þágu íslenskrar máltækni eftir þann tíma og gerir Blindrafélagið kröfu á að ný ríkisstjórn geri það.