Fundargerð 20. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn miðvikudaginn 12. Ágúst kl. 16:00.
Vegna sóttvarna þá fór fundurinn fram í gegnum MS Teams fjarfundarbúnaðinn.
Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Kaisu Hynninen (KH) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, tekur sæti HÞA sem aðalmaður, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA).
1. Fundarsetning.
SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð 19. fundar, sem send var stjórnarmönnum strax eftir fundinn var samþykkt samhljóða, eftir að bent hafði verið á smávægilegar leiðréttingar.
3. Lýst eftir öðrum málum.
Engin önnur mál boðuð.
4. Skýrslur, bréf og erindi.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
Áhrif Covid-19 faraldursins á boðun aðalfundar Blindrafélagsins.
Mikilvægar dagsetningar.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
- Rekstraryfirlit fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
- Fjáraflanir.
- Húsnæðismál
- Ferðaþjónustu
5. Rekstraryfirlit fyrir fyrri sex mánuði ársins.
KHE fór yfir rekstrartölu Blindrafélagsins fyrir fyrri helming ársins. Rekstraryfirlitið hafði verið sent stjórnarmönnum fyrir fundinn.
Megintölur reksturs fyrir fyrstu 6 mánuði ársins eru eftirfarandi í milljónum króna:
- Tekjur: 119,4 milljónir króna. Áætlun gerði ráð fyrir 120,5 milljónum króna. mismunur 0,9%
- Rekstrargjöld: 120,8 mkr - áætlun gerði ráð fyrir 130,1 mkr. mismunur -7%
- Rekstrarafkoma er 1,4 mkr halli en áætlun gerði ráð fyrir 9.6 mkr halla.
Ef litið er til Covid-19 faraldursins og þeirra áhrifa sem að hann hefur haft á rekstur félagsins þá eru tveir liðir sem að vekja sérstaka athygli. Þar er um að ræða að sölutekjur hafa dregist saman um 3,6 mkr (23,6%) frá sama tíma í fyrra og kostnaður vegna félagsmála og mötuneytis er um 11 mkr minni (66%) en á sama tíma og í fyrra. Brúttó eru þetta um 7,4 mkr í plús sem er um 6% af veltu.
GRB og SUH lýstu ánægju með niðurstöðu rekstursins og hversu gott samræmi væri á milli áætlunar og rauntalna. Einnig lýstu þeir ánægju með hversu vel bakhjarlakerfið er að fara af stað og skila góðum tekjum. Tóku aðrir stjórnarmenn undir með GRB og SUH.
6. Aðalfundur Blindrafélagsins.
SUH gerði grein fyrir því að samkvæmt núgildandi sóttvarnarreglum gæti reynst torvelt að halda aðalfund 12. september næstkomandi með hefðbundnum hætti, eins og fyrirhugað var. Óvissan væri mikil og síst minni en síðast liðið vor. Í skýrslu formanns var eftirfarandi:
„Það er ljóst að Kórónuveiran hefur ekki sagt sitt síðasta og miðað við umræður helstu sérfræðinga munum við þurfa að eiga við hana næstu misserin. Eftir ánægjulegt hlé frá byrjun júní og fram í júlí í sumar frá ströngum sóttvarnarráðstöfunum hefur faraldurinn tekið sig upp aftur undanfarið með hópsýkingum og tilheyrandi varúðarrástöfunum. Þegar þetta er skrifað virðist þó sem tekist hafi að koma í veg fyrir útbreiðsluna að þessu sinni. Sóttvarnaryfirvöld, að öðru óbreyttu, sjá fram á að fara að geta létt á vörnunum frekar en að herða á þeim. Enn eru þó í gildi fjöldatakmarkanir m.v. 100 manns skilyrt við tveggja metra fjarlægðarregluna. Á meðan það er í gildi er erfitt að sjá fyrir sér að hægt sé að halda aðalfund með hefðbundnum sniði og erum við því í svipaðri stöðu og við vorum í vor þegar aðalfundinum var frestað vegna Kórónuveirufaraldursins. Það er varla valkostur að fresta aðalfundi fram í hið óendanlega enn á hinn bóginn er það snúið að halda hann þegar ekki er fundarfært á hefðbundin hátt. Einnig verður að líta til þess að þó svo að nú virðist sem sóttin sé í rénun og að við sjáum fram á minni hömlur en undanfarnar vikur þá er ekki ljóst hversu hratt eða hversu mikið verður létt á þeim takmörkunum sem nú gilda. Einnig má ekki horfa fram hjá því að alger óvissa er um hvort eða hvenær hópsýking gýs upp aftur og allt fer í sama farið. Það er því ljóst að mikil óvissa, eða öllu heldur alger óvissa, er fólgin í að spá fyrir um hvernig staðan verður eftir nokkrar vikur og þar af leiðandi ljóst að það þarf talsvert magn af heppni til ef auðnast á að halda aðalfund með óbreyttu sniði. Að framansögðu sýnist mér að við þurfum að hugsa út fyrir boxið og stilla aðalfundi upp þannig að hægt verði að halda hann á hverju sem dynur varðandi sóttina. En það þurfum við að ræða saman um og skiptast á hugmyndum um.
Til upplýsingar er hér hlekkur í núgildandi reglur um sóttvarnir sem n.b. gilda til 13 ágúst (daginn eftir stjórnarfund) Sóttvarnarreglur frá 31. Júlí til 13 ágúst 2020 og til upprifjunar eru hér greinar 8 og 9 úr lögum félagsins sem fjallar um aðalfund, boðun hans og verkefni.
8. gr
Aðalfund skal halda eigi síðar en í maílok ár hvert og skal hann boðaður með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Framboðum til stjórnar félagsins og tillögum að lagabreytingum skal skila til skrifstofu félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.
Berist fleiri framboð til stjórnar en kjósa á um hverju sinni skal stjórn félagsins undirbúa kosningu og birta lista yfir þá sem í kjöri eru. Berist ekki nægilegur fjöldi framboða skal kjörnefndin, svo fljótt sem verða má, hlutast til um að afla þeirra fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal jafnframt leggja mat á kjörgengi frambjóðenda og athuga hvort að félagsgjöld séu í skilum.
Stjórn skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skulu þær birtar félagsmönnum.
9. gr.
Fastir dagskrárliðir aðalfundar skulu vera:
a. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðastliðnu starfsári.
b. Afgreiddir reikningar félagsins og sjálfstæðra rekstrareininga þess fyrir næsta ár á undan.
c. Ákveðið árstillag félagsmanna og gjalddagi þess.
d. Kosning formanns félagsins til tveggja ára.
e. Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn til tveggja ára, samanber 10 grein.
f. Kosning tveggja skoðunarmanna og jafn margra varamanna til tveggja ára.
g. Kosning í kjörnefnd.
h. Lagabreytingar.
i. Aðalfundur ákveði laun stjórnarmanna.
j. Önnur mál.“
Stjórnarmenn ræddu með hvað hætti væri hægt að halda fundinn og fara um leið eftir þeim sóttvarnarreglum sem gilda.
Niðurstaða umræðunnar var að bíða og sjá hvernig þróunin verður með sóttvarnir næstu tvær vikurnar og taka þá stöðuna á ný. Á þeim tíma verði útfærðar tillögur um hvernig halda megi fundinn án þess að ganga gegn gildandi sóttvarnareglum. Var SUH og EKÞ falið að vinna þessar tillögur í samvinnu við KHE. Tillögurnar verði lagðar fyrir stjórn.
7. Önnur mál.
Engin önnur mál voru boðuð.
Fundi slitið kl. 17:15.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.