Fundargerð stjórnar nr. 2 2019-2020

Fundargerð 2. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn miðvikudaginn 12. júní kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Kaisu Hynninen (KH) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður var í símasambandi og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA)

1. Fundarsetning og lýst eftir öðrum málum.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Önnur mál: Engin boðuð.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerðir 1. fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallaði um:

  • Aðalfundur TMF.
  • Aðalfundur Fjólu.
  • Ritstjórn Valdra greina.
  • Ákveðið var að skrifstofan kanni möguleika á því að smíða app sem gæti virkað sem aðgangur að efni í vefvarpinu.
  • Styrk frá Lionsklúbbi Reykjavíkur í sjóðinn Blind börn á Íslandi.
  • Áttatíu ára afmæli Blindrafélagsins 19 ágúst.
  • Fræðsluerindaröð.
  • Ráðstefna um heilatengda sjónskerðingu CVI í október 2019.
  • Undirbúning RIWC2020, fundur með NOK nefndinni.
  • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Blindrafélagið.
  • UNK ráðstefnan 26 – 30 ágúst og NSK/NKK fundur. Samþykkt var að eftirtaldir tækju þátt
  • Baldur Snær Sigurðsson, UNK ráðstefna.
  • Brynja Brynleifsdóttir, UNK ráðstefna.
  • Eyþór Kamban Þrastarson, UNK ráðstefna.
  • Kristín Guðmundsdóttir UNK ráðstefnan.
  • Lilja Sveinsdóttir, UNK ráðstefna og NKK fundur.
  • Marjakaisa Matthíasson, UNK ráðstefna og NKK fundur.
  • Rósa María Hjörvar, UNK ráðstefna og NSK fundur.
  • Sigþór U. Hallfreðsson, UNK ráðstefna og NSK fundur.
  • Þorkell J Steindal, UNK ráðstefna.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Erindi til stjórnar frá aðalfund Blindrafélagsins.
  • Framkvæmdir og húsnæðismál.
  • Fjáraflanir.
  • Fyrirtækjakönnun VR.
  • Ferðaþjónustu Blindrafélagsins.
  • Tilboð í myndbönd fyrir Vefvarpið og Vefþuluna.
  • Fund með ÞÞM um tölvukennslu.
  • Erfðafjárgjafir.

Engin innsend erindi lágu fyrir.

4. Inntaka nýrra félaga.

Ekki lágu fyrir umsóknir um félagsaðild.

5. Verkaskipting stjórnar.

SUH gerði að tillögu sinni að Lilja Sveinsdóttir yrði varaformaður, Hlynur Þór Agnarsson meðstjórnandi, Eyþór Kamban Þrastarson gjaldkeri og Kaisu Hynninen ritari. Var tillagan samþykkt samhljóða.

6. Siðareglu kjörinna fulltrúa.

SUH vakti athygli á siðareglum kjörinna fulltrúa félagsins. Siðareglurnar voru lagðar fram á seinasta fundi og birtar í fundargerð seinasta fundar. Siðareglurnar sem allir stjórnarmenn höfð kynnt sér á milli funda voru samþykktar samhljóða af stjórn.

7. Starfsáætlun stjórnar.

Starfsáætlun stjórnar Blindrafélagsins maí til desember 2019, lögð fram af SUH: Var starfsáætlunin, sem er hér fyrir neðan, samþykkt.
Maí:
22. maí(miðvikudagur). Stjórnarfundur (Þema heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna).
Júní:
12. júní (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 2 (Þema Stefnumótun Bf. og Heimsmarkmiðin)..
Júlí:
10-15 júlí (miðvikudagur til mánudags). Færeyjaferð Blindrafélagsins.
Sumarfrí (boðað til stjórnarfundar ef nauðsyn krefur).
Ágúst:
7 eða 14. ágúst (miðvikudagur). Stjórnarfundur.
16. ágúst (föstudagur). Samráðsfundur stjórnar, nefnda og deilda (mætti líka brjóta upp og færa á virkan dag).
19. ágúst (mánudagur). Afmælishóf á Hótel Nordica klukkan 16:00 til 17:30.
24. ágúst (laugardagur). Afmælishátíð á Menningarnótt frá 14:00 til c.a. 19:00.
26. til 30 ágúst (mánudagur til fimmtudag). UNK ráðstefna í Svíþjóð.
30. til 31 ágúst (föstudag og laugardag) NSK/NKK fundur í Svíþjóð.
September:.
4. september (miðvikudagur). Stjórnarfundur nr. 6.
6 til 8. september (föstudagur til sunnudags) RP-norden í Færeyjum.
25. september (miðvikudagur) Stjórnarfundur.
26. september (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 1.
Október:
10 til 11. október (fimmtudag og föstudag) þemadagar um heilatengda sjónskerðingu CVI
10. október (fimmtudagur). Alþjóðlegi sjónverndardagurinn.
15 október (þriðjudagur). Dagur hvíta stafsins.
16. október (miðvikudagur). Stjórnarfundur.
17. október (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 2.
28. til 30. október (mánudagur til miðvikudagur) EBU aðalfundur í Róm.
Nóvember:
6. nóvember (miðvikudagur) Stjórnarfundur.
14 nóvember (fimmtudagur) Félagsfundur.
27. nóvember (miðvikudagur). Stjórnarfundur.
28. nóvember (fimmtudagur). Hádegisspjall nr. 3.
Desember:
11. desember (miðvikudagur). Stjórnarfundur.

8. Gerð kynningarmyndbands fyrir Vefvarpið og Vefþuluna.

Tilboð frá WebMo í gerð tveggja stuttra kynningarmyndbanda til notkunar á samfélagsvefsvæðum. Annarsvegar fyrir Vefvarpið og hins vegar fyrir Vefþuluna. Tilboðið hljóðar uppá 540.000 krónur.

SUH lagði til að þetta verkefni yrði samþykkt og að Verkefnasjóður myndi standa undir kostnaði við það. Tillagan var samþykkt samhljóða.

9. Erfðafjárgjafir.

Á vettvangi Almannaróms er unnið að því að efna til samstarfs um kynningu á erfðafjárgjöfum. Stjórn Blindrafélagsins þarf að taka afstöðu til þess hvort Blindrafélagið vill vera fullur þátttakandi í þessu verkefni, en kostnaðurinn við það er 1,5 milljónir króna.

Eftirfarandi minnisblað hefur verið sent út af þessu tilefni:

Ósk um samstarf við kynningu á erfðagjöfum til almannaheilla

Bakgrunnur verkefnis:

Kynslóðin sem er að komast á eftirlaunaaldur hefur kynnst byltingarkenndum samfélagsbreytingum á sinni ævi og afkoma flestra er mun betri en foreldra þeirra. Stór hluti þessa hóps styrkir góð málefni allt árið um kring. Um allan heim tíðkast meðal almennings að gefa erfðagjafir til að bæta heiminn eftir sinn dag, það er að minnast almannaheillasamtaka í erfðaskrá. Slíkar gjafir hafa hins vegar ekki verið jafn algengar á Íslandi hingað til.

Almannaheill og fleiri hafa lagt grunn að kynningu á erfðagjöfum með samstarfi um útgáfu bæklings um erfðagjafir í tvígang.

Rauði krossinn, UNICEF og Krabbameinsfélagið óska eftir samstarfi við Almannaheill um kynningu á erfðagjöfum fyrir almenningi og gera fólki þannig kleift að styðja þann málstað sem því þykir vænt um með nýjum hætti.

Tillaga að skiptingu hlutverka:

Tillaga RKÍ, UNICEF og KÍ er að þau félög sjái um að stýra verkefninu og útfæra framleiðslu á kynningarefninu og greiði fyrir þann kostnað auk kostnaðar við birtingar. Almannaheill verði því ekki fyrir neinum útgjöldum vegna verkefnisins. Framlag Almannaheilla felist fyrst og fremst í að formaður Almannaheilla sé í forsvari fyrir verkefnið í fjölmiðlum til að tryggja hlutleysi og góða almenna nálgun á umræðuna.

RKÍ, KÍ og UNICEF munu leggja til aðstoð upplýsingafulltrúa sinna við að móta áherslur og leggja til efni fyrir umræður í fjölmiðlum.

Lógó Rauða krossins, UNICEF og Krabbameinsfélagsins auk merkis Almannaheilla væru sýnileg í lokaskilti myndbands og öðru kynningarefni. Ef önnur félög innan Almannaheilla vilja að sitt lógó komi fram líka þá greiði það félag jafnan hlut við hin í kostnaði við framleiðslu og birtingar (áætlað um 1,5 mkr).

Jafnframt er óskað eftir því að Almannaheill taki að sér að móttaka reikninga fyrir kostnaði og senda til RKÍ, KÍ og UNICEF – þriðjung hver eða eftir atvikum, kjósi fleiri félög að taka þátt í kostnaði.

Undirbúningur:

Leitað hefur verið tilboða og ákveðið að ganga til samstarfs við Íslensku auglýsingastofuna um eftirfarandi:

  • Gerð myndbands þar sem inntakið er ósk um að bæta heiminn eftir sinn dag fyrir komandi kynslóðir. Við munum leggja áherslu á að það sé ekkert eitt málefni eða málstaður sem sé ríkjandi í mynd eða texta.
  • Fróðleiksmolar fyrir samfélagsmiðla og vefborða um erfðagjafir.

Lénið www.erfdagjafir.is hefur verið keypt til að nota sem upplýsingasíðu. Tilgangur síðunnar er að vera upplýsingasíða með einföldu sniði með texta, grafík og hlekkjum á undirsíður félaganna um erfðagjafir. Gert er ráð fyrir að færa skráningu síðunnar til Almannaheilla.
Tímasetning væri ákjósanleg í maí eða september. Fyrst og fremst er þó áhersla á að vandaðan undirbúning.

Viðburðir og fleira:

Ljóst er að fjölmiðlaumræða spilar lykilhlutverk í kynningu á svona verkefni. Við leggjum til að við stöndum sameiginlega að málþingi um erfðagjafir í samstarfi við aðila eins og HR eða HÍ. Einnig hefur verið rætt að standa sameiginlega að könnun um þekkingu og áhuga á erfðagjöfum meðal almennings sem gæti átt heima á slíku málþingi og stuðlað að gagnlegri umræðu.

Stjórn samþykkti þátttöku og að Verkefnasjóður myndi greiða kostnaðinn.

10. Úthlutunarreglur leiguíbúða Blindrafélagsins.

Á seinasta aðalfundi var samþykkt að vísa til stjórnar að endurskoða úthlutunarreglur leiguíbúða Blindrafélagsins.

Núverandi reglur um úthlutun leiguíbúða félagsins eru eftirfarandi:

Til að umsókn um leiguíbúð hjá Blindrafélaginu teljist gild þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Að vera skuldlaus félagsmaður í Blindrafélaginu.
  • Að vera undir tilgreindum tekju- og eignamörkum.
  • Vera ekki skráður eigandi fasteignar.

Í hvert sinn sem að íbúð losnar er hún auglýst laus til umsóknar. Umsóknir frá fyrri úthlutunum þarf að endurnýja.

Umsóknum skal fylgja staðfest afrit skattframtals. Upplýsingar frá umsækjendum eru eingöngu notaðar vegna úrvinnslu umsókna og er eytt að lokinni úthlutun.

Sérstök úthlutunarnefnd fer yfir umsóknir og úthlutar. Við úthlutun skal horft til:

  • Núverandi húsnæðisaðstæðna.
  • Fjölskylduaðstæðna, þar á meðal fjölskyldustærðar og fjölda barna.
  • Heilsufars og vinnugetu.

Úthlutunarnefndin sem er skipuð tveimur félagsmálafulltrúum af skrifstofu Blindrafélagsins, auk þess er félagsráðgjafi Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og fólk með samþætta sjón og heyrnaskerðingu, nefndinni til ráðgjafar. Framkvæmdastjóri, sem að veitir umsóknum viðtökum, útbýr yfirlit yfir umsóknirnar og stillir umsóknunum upp nafnlausum fyrir úthlutunarnefndina til að vinna með og úthluta eftir.

Stjórn samþykkti að ekki væri tilefni til að breyta úthlutunarreglunum og því skyldu þær vera óbreyttar.

11. Launastefna Blindrafélagsins.

Á aðalfundi Blindrafélagsins var samþykkt tillaga Arnþórs Helgasonar að vísa því til stjórnar hvort rétt væri að gera laun framkvæmdastjóra Blindrafélagsins opinber.

Eftirfarandi upplýsingar lágu fyrir:

Samkvæmt leiðsögn frá Persónuvernd þurfa að vera mjög ríkar málefnalegar og vel rökstuddar ástæður fyrir því að gera laun starfsfólks opinber og gæta verður meðalhófs í þeim efnum. Sérstaklega á þetta við þegar kemur að sundurliðun launa.

Frá 2014 hefur launastefna félagsins verið opinber og legið fyrir í gögnum félagsins, eins og til dæmis í fundargerðum stjórnar, þar sem stjórn hefur reglulega fjallað um stefnuna. Seinast var fjallað um launstefnu félagsins á 14. stjórnarfundi seinustu stjórnar, þann 20 febrúar fyrr á þessu ári. Þar var launastefnan staðfest en hún er svohljóðandi:

Jafnræði skal gilda í launum á milli kynja og eins milli sjónskertra/blindra og fullsjáandi, þegar um samsvarandi störf er að ræða. Laun starfsfólks Blindrafélagsins skulu taka mið af meðallaunum fyrir samsvarandi störf eins og þau mælast í launakönnunum VR á hverjum tíma. Hæstu laun verði um það bil tvöföld meðallaun hjá félaginu.

Til að varpa ljósi á umfang starfsemi Blindrafélagsins og tengdra eininga þá má benda á eignir félagsins 31.12.2018 eru um 1.159 milljónir. Heildarvelta starfsemi Blindrafélagsins, Ferðaþjónustu Blindrafélagsins og Blindravinnustofunnar er 488 milljónir árið 2018 og að í hverjum mánuði eru reiknuð út laun fyrir 50 einstaklinga.

Vegna umfangs starfseminnar og sérhæfingar starfa er mikilvægt að hjá félaginu starfi hæft starfsfólks og að starfsmannavelta sé innan eðlilegra marka. Til að stuðla að því að svo megi vera þá þarf félagið að greiða samkeppnishæf laun svo starfsfólk félagsins sé ekki stöðugt að leita sér að betur launuðu starfi.

Samkvæmt launakönnur VR eru meðallaun félaga í VR í febrúar 2019 644 þúsund krónur á mánuði fyrir dagvinnu í 100% starfi. Meðallaun starfsfólks Blindrafélagsins í febrúar 2019 eru hins vegar um 550 þúsund krónur. Eðlilegar skýringar eru á þessum mismun sem eðli málsins samkvæmt er ekki rétt að rekja hér.

Með vísan í leiðbeiningar Persónuverndar þá samþykkti stjórn að ekki væri ástæða til að gefa frekari upplýsingar um laun starfsfólks félagsins umfram það sem að fram kemur í launastefnu Blindrafélagsins.

Fundi slitið kl. 18:00.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.