Fundargerð stjórnar nr. 15 2016-2017

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Rósa María Hjörvar (RMH) varaformaður, Baldur Snær Sigurðsson (BSS) ritari, Sigríður Hlín Jónsdóttir (SHJ) gjaldkeri var í Skype sambandi frá Noregi, Lilja Sveinsdóttir (LS) meðstjórnandi, Elínborg Lárusdóttir (EL) varamaður, og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi: María Hauksdóttir (MH) varamaður, Patrekur Andrés Axelsson (PAA) varamaður

1.  Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.

Formaður setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna og bar upp tillögu að dagskrá sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.

Lýst eftir öðrum málum: RMH

2.  Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 14. fundar, sem send hafði verið fundarmönnum fyrir fundinn var samþykkt.

3. Skýrslur

Í skýrslu formanns var fjallað um:

        Andleg vellíðan - fyrirlestraröð.

        Samráðsfundur stjórnar, deilda og nefnda 20 janúar.

        Móttaka fyrir þátttakendur í Sound of Vision 25 janúar.

        Tæknikvöld á vegum jafnréttisnefndar 25. Janúar.

        Algild hönnun og aðgengismál.

        Bílskýli Strætó í Hamrahlíð.

        Fundur Almannheila.

        Af norrænu samstarfi.

        Af vettvangi ÖBÍ.

        Af vettvangi EBU. 

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

        Rekstraráætlun fyrir 2017.

        Rekstur Blindravinnustofunnar fyrir 2016.

        Leiðsöguhundadagatalið.

        Ferðaþjónusta Blindrafélagsins.

        NOK 2020 og RIWC 2020.

        Blindlist.

        Starfsmannamál.

        Krakka hittingur á Akureyri.

        Almannarómur.

Ánægju var lýst með hugmyndir um að Blindrafélagið tæki að sér skrifstofu og fjármálaumsýslu fyrir Almannaróm og var framkvæmdastjóra gefin heimild til að ganga til samninga við Almannaróm verði þess óskað.

4. Bréf og erindi.  

        Tilkynning um sex nýja félaga í janúar.

        Erindi frá mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar um stöðu  punktaleturnefndar.
Samþykkt var að vísa erindinu til ÞÞM sem samkvæmt lögum nefndin heyrir undir.

5. Rekstraráætlun Blindrafélagsins 2017 – síðari umræða og afgreiðsla.

KHE fór yfir uppfærða rekstraráætlun fyrir 2017, sem send var stjórnarmönnum fyrir fundinn. Ekki er um neinar breytingar á megin niðurstöðum frá þeirri áætlun sem send var út fyrir 14. stjórnarfund. Helstu niðurstöðutölur fyrir árið 2017 eru:
Tekjur eru áætlaðar 219,6 millj. kr. sem er um 1,9% hækkun frá 2016.
Rekstrargjöld eru áætluð 211,1 millj. kr. sem er um 1,8% hækkun frá 2016.
EBIDTA, sem er rekstrarafkoma án afskrifta og fjármagnsliða, er áætluð um 8,4 millj. kr.
Rekstrarafkoma með afskriftum en án fjármagnsliða verður að öllum líkindum um 8 millj. kr. 
Að afskriftum og fjármagnsliðum meðtöldum er áætlað að reksturinn verði nálægt núllinu.

Rekstraráætluninni fylgir jafnframt bráðabirgða rekstrarreikningur fyrir 2016. Helstu rekstrar niðurstöður fyrir 2016 eru:
Tekjur:  215,5 millj. kr. sem er um 1,3% undir áætlunin fyrir 2016.
Rekstrargjöld: 207,4 millj. kr. sem er um 3,6% undir áætluninni fyrr 2016.
EBIDTA, sem er rekstrarafkoma án afskrifta og fjármagnsliða, er áætluð um 8,4 millj. kr.
Rekstrarafkoma með afskriftir og fjármagnsliði meðtalda verður líklega í kringum núllið.

Varðandi frekari sundurliðun vísast í rekstraráætlunin sem er hluti fundargagna.

Eftir spurningar og umræður var rekstraráætlunin samþykkt samhljóða.

6. Aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi.

SUH lagði fram eftirfarandi tillögu um viðbragðsáætlun Blindrafélagsins gegn kynferðislegu ofbeldi á vettvangi félagsins:

„Viðbragðsáætlun Blindrafélagsins gegn kynferðislegu ofbeldi

Á vettvangi Blindrafélagsins skal vera starfandi fagráð gegn kynferðislegu ofbeldi/áreiti, hér eftir nefnt fagráð. Stjórn Blindrafélagsins skipar í fagráðið sem hefur það hlutverk að styðja við þolendur.

Í þeim tilgangi að skapa aðstæður sem stuðla gegn því að kynferðislegt ofbeldi eigi sér stað á vettvangi Blindrafélagsins er mikilvægt að öllum sé það kunnugt að þolendur eigi stuðning fagráðs félagsins vísan við umfjöllun og meðferða umkvartana sem þeir bera fram við stjórnendur félagsins eða fagráð. Fagráðið er ekki rannsóknaraðili.

1.     Innan Blindrafélagsins eiga þolendur kynferðislegs ofbeldis, sem kann að hafa átt sér stað innan félagsins,  kost á að leita beint til fagráðs félagsins.

2.     Leiti þolandi til starfsmanna félagsins vegna kynferðislegs ofbeldis á vettvangi félagsins skulu þeir leiðbeina þolanda við að vísa máli sínu til umfjöllunar hjá fagráði.

3.     Komi upp mál sem að snúa að börnum sem (undir 18 ára) ber að vísa slíkum málum umsvifalaust til barnaverndaryfirvalda og/eða lögreglu.

4.     Stjórn Blindrafélagsins skipar (þrjá) aðila í fagráð.  Í því skulu vera fulltrúar af báðum kynjum og aðilar með menntun á sviði félagsráðgjafar, lögfræði og heilbrigðisgreina eða aðili með sambærilegan bakgrunn.  Hlutverk fagráðs er að fjalla um þau mál sem vísað er til þess, leiðbeina þolanda og  gera tillögu um viðbrögð til tilheyrandi aðila.   Ákvörðun um viðbrögð og næstu skref eru alltaf að höfðu samráði við þolanda.

5.     Fulltrúi frá fagráði skal hafa samband við þolanda innan 24 klst. frá því að máli er vísað til fagráðs.  Meðal viðbragða getur verið að láta málið kyrrt liggja, gera tillögu til stjórnar félagsins um viðbrögð og/eða, vísa málinu til lögreglu. 

6.     Stjórn Blindrafélagsins er skylt að taka til umfjöllunar og úrskurða í málum sem fagráð félagsins hefur vísað til stjórnarinnar. Úrræði stjórnar taka óhjákvæmilega mið af stöðu gerenda, þ.e. hvort hann er stjórnarmaður, starfsmaður, félagsmaður eða utanaðkomandi aðili. Eigi stjórnarmaður aðild að máli, sem meintur þolandi, gerandi eða trúnaðarmaður þolanda, skal hann víkja úr stjórn á meðan málið er tekið fyrir innan stjórnar. Það sama skal gilda ef almennar vanhæfisreglur eiga við um einhvern stjórnarmann. 

7.      Þessar reglur eru settar og samþykktar af stjórn Blindrafélagsins.

SUH kynnti meginatriði áætlunarinnar. Rætt var um hvernig best væri að standa að því að innleiða áætlunina og skipa í fagráðið. Tillagan var samþykkt samhljóða sem og að fela formanni og framkvæmdastjóra innleiðinguna og að finna einstaklinga í fagráð.

8. Vettvangsskoðun í Íslandsbanka Smáralind.

LS gerði grein fyrir að hún hafi farið í vettvangskönnun í Íslandbanka í Smáralind. Niðurstaða heimsóknarinnar var að skipulag á afgreiðslugólfi var um margt ábótavant. Kvörtunum hefur verið komið á framfæri og von er á úrbótum. Stefnt er að því að fara í aðra vettvangskönnun síðar.

Umræður sköpuðust um stafrænt aðgengi að bankaþjónustu og mikilvægi þess að Blindrafélagið fylgdist vel með og léti til sín taka þar sem að þörf væri á. Var í því sambandi vakin athygli á samskiptum Arnþórs Helgasonar við Íslandsbanka.

RMH stakk uppá að kannað verði hvort að hæg væri að semja við bankana um að þeir félagsmenn sem ekki geta nýtt sér rafræn þjónustuúrræði eigi kost á ókeypis símaþjónustu.

9. Önnur mál. 

RMH hvatti til þess að hugað verið að því að flokka allt sorp í Hamrahlíð 17. Var framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.

Fundi slitið kl 18:00

Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.