Vika sjónverndar, aðgengis og hvíta stafsins á enda – Hugleiðingar aðgengisfulltrúa

Svæði vel merkt með gulum lit
Svæði vel merkt með gulum lit

Fimmtudaginn 8. október síðastliðinn var alþjóðlegur sjónverndardagur og viku síðar, fimmtudaginn 15. október, var Dagur hvíta stafsins. Sökum hertra sóttvarnarreglna gátum við ekki haldið upp á þá með hefðbundnu sniði og sú ákvörðun var tekin að færa þá á internetið, nánar tiltekið samfélagsmiðla.

Undirbúningsnefnd skipuð starfsfólki Blindrafélagsins og Þjónustu- og Þekkingarmiðstöðvarinnar hélt utan um verkefnið og ég vil þakka þeim öllum fyrir virkilega vel unnin störf. Ákveðið var að taka alla vikuna frá sjónverndardeginum fram að Degi hvíta stafsins og nota hana fyrir vitundarvakningu varðandi sjónvernd, aðgengi og hvíta stafinn. Settir voru inn litlir fræðslumolar, lýsandi myndir og fleira skemmtilegt og notast var við myllumerkin #sjónvernd, #aðgengi og #hvítistafurinn. Einnig vil ég þakka félagsmönnum Blindrafélagsins fyrir sína þátttöku sem og öllum þeim fjölmörgu sem líkuðu við og deildu upplýsingunum áfram. Ég er mjög ánægður með hvernig til tókst og minni á að allt fræðsluefnið er aðgengilegt á Facebook undir viðburðinum Dagur hvíta stafsins 2020 – Á netinu.

Það sem mér þótti hvað vænst um var sá mikli áhugi og velvilji almennings gagnvart aðgengi sem kom bersýnilega í ljós í síðastliðinni viku og það er gott að vita til þess víðtæka stuðnings sem þessi málaflokkur virðist hafa í samfélaginu. Manni gæti vissulega þótt það einkennilegt ef einhver skyldi setja sig á beinan hátt gegn auknu aðgengi, en ég kýs að ganga ekki að neinu vísu og þakka því fyrir allan þann stuðning sem barátta fyrir bættu aðgengi fær.

Undanfarin ár hefur Blindrafélagið lagt mikla vinnu í fræðslu um aðgengismál til almennings, stofnana og fyrirtækja. Sú vinna hefur skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag. Fólk er almennt meðvitaðra um tilvist og mikilvægi góðs aðgengis en áður, en „Hugurinn ber okkur aðeins hálfa leið“ eins og einhver sagði og það er mín skoðun að næsta skref er að hefjast handa við að breyta, bæta og innleiða nýjar lausnir, nýjar hugmyndir og breytta vinnuferla. Það er eitt að vilja en nú er komið að okkur að framkvæma.

Á næstu vikum mun ég birta nokkrar greinar varðandi aðgengismál á heimasíðu Blindrafélagsins.

Hafir þú einhverjar spurningar, óskir eftir ráðgjöf eða frekari upplýsingum að hafa samband við okkur hjá Blindrafélaginu í síma 525 0000 eða á netfangið adgengi@blind.is.

Vissir þú að:

Blindrafélagið er í samstarfi við ýmis fyrirtæki og er með umboð fyrir ýmsar vörur hérlendis er snúa að aðgengismálum. Við getum veitt ráðgjöf og útvegað lausnir sem stuðla að bættu aðgengi, hvort sem það er í raunheimum eða stafrænum lausnum:

  • Umboðsaðili fyrir leiðarlínur og aðrar umhverfismerkingar frá fyrirtækjunum Handi-Friendly frá Tékklandi og Olejár frá Slóvakíu.
  • Umboðsaðili ReadSpeaker á Íslandi. Talgervislausnir á borð við vefþuluna (hlusta hnappinn) o.fl.
  • Samstarfsaðili Siteimprove á Íslandi. Siteimprove býður lausnir sem snúa að því að bæta gæði vefsvæða, allt frá aðgengi upp í leitarvélabestun.
  • Umboðsaðili NaviLens á Íslandi. NaviLens er ný og spennandi tækni fyrir merkingar í umhverfi, vörum og í raun hverju sem er.
  • Samstarfsaðili Be My Eyes á Íslandi. Með Be My Eyes appinu geta sjáandi einstaklingar aðstoðað blinda og sjónskerta notendur með ýmis hversdagsleg verk með einföldum hætti.

Hlynur Þór Agnarsson,
Aðgengis- og upplýsingafulltrúi Blindrafélagsins
hlynur@blind.is