Rafmagnshlaupahjól eða rafskútur, eins og þær eru gjarnan kallaðar, hafa notið vaxandi vinsælda hér á landi. Þessi tæki eru vissulega spennandi viðbót við fjölbreytta flóru farartækja hérlendis auk þess sem við fögnum því að sífellt fleiri kjósa sér umhverfisvænan ferðamáta á borð við þennan.
Þar sem rafskútur eru einungis ætlaðar fyrir notkun á göngustígum er náið samneyti við gangandi vegfarendur óumflýjanlegt. Það er því ósk Blindrafélagsins, sem og fjölda annarra, að notendur þessara tækja sýni gangandi vegfarendum tillitssemi. Á sama tíma og skýrar reglur gilda um notkun þeirra skiptir einnig miklu máli að notast við heilbrigða skynsemi og almenna kurteisi. Hraði þessara tækja getur verið mikill á meðan þau gefa lítið sem ekkert hljóð frá sér. Því er sérlega mikilvægt að gæta að sér þegar ekið er framhjá gangandi vegfarendum vegna þeirrar slysahættu sem er til staðar í slíkum návígum.
Við viljum einnig benda á að fjöldi fólks með sjónskerðingu á mismunandi stigum ferðast gangandi um höfuðborgarsvæðið og séu rafskútur skildar eftir á miðjum göngustígum er það stórhættuleg slysagildra og á það ekki aðeins við um þá vegfarendur sem eru blindir eða sjónskertir. Við tölum gjarnan um tímabundna sjónskerðingu þegar fólk er til dæmis að horfa á símann sinn eða er með athyglina annars staðar en á því sem fyrir framan það er.
Blindrafélagið fagnar því tilkomu þessa nýja og umhverfisvæna ferðamáta en biðlar til þeirra sem ferðast um á rafskútum og öðrum sambærilegum farartækjum að sýna gangandi vegfarendum, sem og öllum öðrum, tillitssemi og fara eftir settum reglum.