Svanhildur Anna Sveinsdóttir á Akranesi, sem var í viðtali í Skessuhorni í síðustu viku vegna sjónskerðingar og annarar fötlunar, fékk í dag sérþjálfaðan blindrahund. Þetta er jafnframt fyrsti blindrahundurinn sem kemur í bæjarfélagið og því er afar mikilvægt að íbúar læri að taka tillit til þeirra í umferðinni á næstunni. Hundurinn Exo er fimm ára gamall svartur labradorhundur. Hann hefur reyndar áður komist á síður Skessuhorns því fyrri umráðamaður hans var Alexander Hrafnkelsson úr Stykkishólmi sem var orðinn nær blindur fyrir nokkrum árum en fékk töluverða sjón aftur eftir vel heppnaða augnaðgerð og var því ekki áfram háður aðstoð leiðsöguhunds. Alexander þurfti því að skila hundinum sem í vetur hefur verið í endurþjálfun hjá Drífu Gestsdóttur hundaþjálfara Blindrafélagsins.
Svanhildur Anna segist spennt fyrir þeim breytingum sem nú verði hjá henni samhliða því að fá Exó inn á heimilið og sér til aðstoðar í gönguferðum. “Ég er samt pínulítið stressuð og kannski óörugg af því að ég þarf að læra svo margt. Þó ég þekki hunda frá því ég var í sveit er þetta ólíkt því að vera með gæludýr. Ég er samt bjartsýn og hlakkar til,” segir Svanhildur Anna sem næstu daga verður á ferðinni ásamt Exó og Drífu hundaþjálfara því sú síðarnefnda mun fylgja þeim í hálfan mánuð til aðstoðar og þjálfunar.