Nærri 300 milljónir manna um heim allan eru annað hvort blind eða sjónskert. Þess vegna fagnar World Blind Union einkunnarorðum Alþjóðlega sjónverndardagsins í ár, sem eru: „Sjónin skiptir máli“. Alþjóðlegi sjónverndardagurinn er haldinn um heim allan annan fimmtudag októbermánaðar á hvert, til að vekja athygli á viðleitninni til að fyrirbyggja og lækna sjónmissi. Í ár er Alþóðlegi sjónverndardagurinn haldinn þann 12. október.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) áætlar að í heiminum séu 285 milljónir manna blind eða sjónskert. Þar af 39 milljónir blind og 246 milljónir sjónskert. Um 90 prósent blindra og sjónskertra búa í lágtekjuumhverfi, en 82 prósent blindra eru 50 ára eða eldri. Vegna fólksfjölgunar og hærri meðalaldurs, er talið að fjöldi blindra og sjónskertra verði mun meiri árið 2020.
WHO telur að koma megi í veg fyrir 80 af hundraði allrar blindu og sjónskerðingar í heiminum. Það að koma í veg fyrir eða lækna sjónmissi er með því hagkvæmasta og árangursríkasta sem gert er í heilbrigðiskerfinu í dag. Hins vegar eru ómeðhöndlaðir sjónlagsgallar helsta ástæða lítillar og alvarlegrar sjónskerðingar. Ský á augasteini er enn helsta orsök blindu í löndum þar sem tekjur eru meðalháar eða lágar.
World Blind Union lítur á málefni blindra og sjónskertra sem mannréttindamál og hvetur því ríkisstjórnir um allan heim til þess að standa við skuldbindingu sína við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem leitast við að standa vörð um grundvallarréttindi fatlaðra. Ríki sem staðfest hafa samninginn og skuldbundið sig til að fara að markmiðunum, munu þurfa að tryggja rétt fatlaðra til bestu mögulegrar heilsu án mismununar.
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að ríkin skuli: „Láta fötluðum í té heilbrigðisþjónustu við þeirra hæfi, þ.e. þá þjónustu sem þau þurfa sérstaklega á að halda vegna fötlunar sinnar, þar á meðal snemmgreiningu og inngrip við hæfi, auk þjónustu sem miðar að því að minnka líkur á eða koma í veg fyrir aukna fötlun, þar á meðal hjá börnum og eldri borgurum.“
Þess vegna biður WBU ríkisstjórnir að veita nægu fé til heilbrigðismála og sjá til þess að fólk með fatlanir, sér í lagi þau sem lifa við blindu eða sjónskerðingu, hafi fullan aðgang að góðri og ódýrri heilbrigðisþjónustuog hjálpartækjum, auk hæfingar og endurhæfingar. Ríkisstjórnir verða auk þess að bjóða upp á nauðsynlega snemmgreiningu og inngrip, til þess að minnka líkur á og koma í veg fyrir blindu eins og hægt er.
Þar að auki hvetur WBU ríkisstjórnir til að tryggja aðgang að, þekkingu um og notkun hjálpartækja og tækni sem ætluð er blindum og sjónskertum, svo sem gleraugum, blindraletri og hvíta stafnum. Það er líka mikilvægt að tryggð sé stöðug þjálfun fagaðila og starfsfólks í heilbrigðiskerfinu og aðgang að þjónustu þeirra, sér í lagi í strjálbýli.
WBU skorar einnig á þau ríki sem staðfest hafa samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og markmiðin um sjálfbæra þróun, að láta reglulega í té upplýsingar sem sýni framfarir í heilbrigðismálum og velferð fatlaðra, sérstaklega meðal blindra og sjónskertra kvenna og barna.
World Blind Union sér fyrir sér heim þar sem blindu og sjónskertu fólki er gert kleift að taka jafnan þátt á við aðra, hvar sem er í þjóðfélaginu. Þegar við minnumst Alþjóðlega sjónverndardagsins, fagnar WBU VISION 2020 , alheimsátaki til útrýmingar blindu sem hægt er að koma í veg fyrir, sem er áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Alþjóðaskrifstofu til hömlunar blindu (International Agency for the Prevention of Blindness, IAPB).
World Blind Union er fulltrúi þeirra á að giska 285 milljóna manna í heiminum sem eru blind eða sjónskert. Aðilar að sambandinu eru samtök blindra og sjónskertra og blindravinafélög í yfir 190 löndum, ásamt alheimssamtökum sem starfa á sviði sjónskerðingar. Heimasíða sambandsins er www.worldblindunion.org
(Haraldur Matthíasson sneri úr ensku)