Blindrafélagið auglýsti í seinasta mánuði eftir umsóknum um nýtt starf aðgengisfulltrúa hjá félaginu. Alls bárust 17 umsóknir um starfið. Rósa María Hjörvar var metin hæfust allra umsækjenda og mun hún hefja störf 2 janúar 2019.
Starfslýsing í auglýsigunni var eftirfarandi:
„Samskipti og samstarf við: Umferlisteymi Þjónustu og þekkingamiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu, hönnuði, framkvæmdaraðila, stjórnvöld og fjölmiðla í þeim tilgangi að vekja athygli á ákvæðum laga, reglna, staðla og góðra venja þegar kemur að aðgengislausnum í bæði almennu og opinberu rými og þrýsta á um úrbætur þar sem þeirra er þörf. Kynna og vekja athygli á lausnum sem að eru til fyrirmyndar.“
Rósa María starfaði sem fagstjóri tölvuráðgjafar Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu frá 2012 – 2017, Hún var aðgengisfulltrúi hjá Blindrafélaginu 2011 – 2012 og mentor hjá Microsoft Nordic, København 2007 – 2010.
Rósa María er búin að vera í í doktorsnámi í almennri bókmenntafræðivið við HÍ frá 2016, hún er með meistarapróf í dönsku og þýðingafræði, með ensku sem aukamál og meistarapróf í almennri bókmenntafræði frá Københavns Universtitet og BA nám í bókmenntafræði, fornleifafræði frá Syddansk Universtitet.
Rósa María hefur verið formaður málefnahóps ÖBÍ frá 2017, ritstjóri Víðsjár, tímarits Blindrafélagsins frá 2015, auk þess sem hún hefur sinnt ýmsum þýðingaverkefnum.
Rósa María er mjög spennt fyrir að fá tækifæri til að koma aftur til starfa í þessum mikilvæga málaflokki og hafði þetta að segja:;.
"Í starfi mínu sem aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins vann ég sjálfstætt að verkefnum sem tengjast ferilfræðilegu aðgengi, haft frumkvæði af samstarfi við stofnannir og einkaaðila og kynnti mismunandi aðgengislausnir fyrir hönnuðum og umsjónarmönnum fasteigna. Ég hef þar að auki kynnt mér ákvarðanatökuferli í stjórnsýslunni, setið sem varamaður í Ferlinefnd Reykjavíkur og haldið ótal kynningar og fyrirlestra um málefni blindra og sjónskertra. Sem starfsmaður Þjónustu og þekkingamiðstöðvarinnar vann ég við úttektir á aðgengi, veitti ráðgjöf og tók þátt í samstarfi við Mannvirkjastofnun við undirbúning á byggingarreglugerð. Ég hef góð tök á bæði ensku og skandinavísku. Ég er vön að vinna sjálfstætt og hafa frumkvæði af verkefnum. Ég á auðvelt með samskipti og hef alltaf þurft að reiða mig á gott tengslanet í störfum mínum. Ég er fjölmiðlavön, er menntuð í ritstjórn og menningarmiðlun, og hef starfa minna vegna þurft að koma mikið fram í fjölmiðlum og skrifa greinar.“
Rósa María er boðin velkomin til starfa og standa vonir til þess að með ráðningu hennar þá verði hægt að bæta stöðu aðgengismála blindra og sjónskertra á Íslandi.