Á myndinni eru Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blinrafélagsins, og Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra, að undirrita samninginn. Mynd: Þórunn Hjartardóttir.
Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra, undirritaði samning við Blindrafélagið um að ráðuneytið styrkti leiðsöguhundaverkefni félagsins um 3 milljónir króna á árinu 2019. Samningurinn var undirritaður á hátíðarsamkomu félagsins í tilefni af 80 ára afmæli félagsins þann 19. ágúst síðastliðin. Sigþór U. Hallfreðsson, formaður, undirritaði samninginn fyrir hönd Blindrafélagsins.
Leiðsöguhundar eru mikilvægt hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga, en þeir eru sérþjálfaðir aðstoðarhundar sem gera blindum kleift að komast leiðar sinnar í annars óaðgengilegu umhverfi.
Leiðsöguhundar eru ekki hvaða hundar sem er, þeir eru sérvaldir og prófaðir áður en þjálfun hefst og taka venjulega til starfa þegar þeir hafa náð um tveggja ára aldri. Þetta er mjög kostnaðarsamt ferli og hefur Blindrafélagið hingað til fjármagnað kaup á hundum hingað til lands. En sá kostnaður hefur verið sóttur í fjáraflanir félagsins og þá sérstaklega hið vinsæla leiðsöguhundadagatal. Það eru sjö starfandi leiðsöguhundar á landinu í dag en vonir standa til að fleiri fái að njóta þessa frábæra stuðnings. Nú hefur ráðuneytið hinsvegar ákveðið að koma að fjármögnun verkefnisins og leggur til 3 milljónir á þessu ári.
Einn leiðsöguhundur kostar 6 til 7 miljónir íslenskra króna.