Aðgengisverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, hópum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um gott aðgengi. Viðurkenningunni er ætlað að gera aðgengismálum hærra undir höfði og varpa ljósi á það sem vel er gert í málaflokknum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti viðurkenninguna, sem nú er veitt í fyrsta sinn. Hann sagði mikilvægt að hrósa fyrir það sem vel væri gert í aðgengismálum um leið og hann hvatti aðra til að huga betur að aðgengi. Gott aðgengi í víðum skilningi þess hugtaks er mikilvægt mannréttindamál og undirstaða þess að fólk með fjölbreyttar aðgengisþarfir geti tekið þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.
Sigþór Unnstein Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, tók með stolti við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins og sagði við það tækifæri að mikilvægt væri að huga að aðgengi fyrir alla í samfélaginu. Hann sagði verðlaunin líka viðurkenningu á því að borgaryfirvöld létu sig gott aðgengi varða og að það væri mikils virði að þau lýstu vilja til að setja aðgengismál framar í forgangsröðun sína.
Í rökstuðningi valnefndar segir:
„Mörg af brýnustu hagsmunamálum blindra hafa náðst fram af frumkvæði Blindrafélagsins og þar er m.a. hægt að nefna Hljóðbókasafn Íslands, Sjónstöð Íslands og Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Auk áherslu á bætt aðgengi bæði innan og utan dyra hefur Blindrafélagið undanfarin ár lagt áherslu á bætt netaðgengi og að vefsíður séu aðgengilegar blindum og sjónskertu fólki. Blindrafélagið átti frumkvæði að smíði nýs íslensks talgervils sem er gervirödd sem les texta“.
Valnefnd skipuð af fulltrúum tilnefndum af ferlinefnd, starfsmanni mannréttindaskrifstofu, formanni mannréttindaráðs og formanni ferlinefndar, sá um valið og var það samdóma álit að Blindrafélagið væri vel að viðurkenningunni komið.