Stefnumótunarskýrsla stjórnar Blindrafélagsins frá því nóvember 2016

Stefnumótunarskýrslan á pdf sniði

Efnisyfirlit

Stefnumótun.
Inngangur.
Mannréttindasamtök.
Gildi.
Stuðningur til sjálfstæðis.
Stöðumat.
Ytra umhverfi.
Innra umhverfi.
SVÓT  Styrkleikar – Veikleikar – Ógnanir – Tækifæri.
Framtíðarsýn. 
Sóknaráætlun. 
Meginmarkmið. 
Starfsmarkmið og verkefni.
A)       Stuðningur til sjálfstæðis.
B)        Traust hagsmunagæsla.
C)       Uppbyggilegt fræðslustarf. 
D)       Öflugt félagsstarf. 
E)        Góð þjónusta.
F)        Fagleg stjórnun.
G)       Jafningjastuðningur og valdefling.
H)       Vísindaþróun á sviði meðferða og lækninga.
I)     Öflugur samstarfsaðili og þáttakandi.. 
Lokaorð. 

Inngangur

 Þessi stefnumótunarskýrsla byggir á ítarlegri stefnumótunarvinnu sem upphaflega var unnin á vettvangi félagsins á árinu 2009. Fjölmargir fundir voru þá haldnir og kom fjöldi félagsmanna að vinnunni, eins og sjá má í upphaflegu skýrslunni frá 2009.

Frá þessum tíma hefur stefnumótunin verið endurskoðuð á hverju ári, að undanskildu 2015, á vettvangi stjórnar félagsins á sérstökum vinnufundum sem haldnir hafa verið í janúar og að hausti ár hvert.

Frá 2009 má glöggt sjá að framkvæmd sóknaráætlunarinnar hefur að mörgu gengið vel eftir og mörgum stórum verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd. Á þessum tíma hafa eðli málsins samkvæmt ný verkefni bæst við sem jafnóðum hafa verið sett inn í sóknaráætlunina. Fyrir áhugasama er hægt að sjá þróun verkefnaáætlunarinnar með samanburði á milli útgefinna skýrslna.

Mannréttindasamtök

 Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, stofnað 1939, er samfélagslegt afl – mannréttindasamtök – sem berst fyrir því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi í samfélagi án aðgreiningar, þar sem þeim er tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins. Ekkert um okkur án okkar – er sameiginlegt kjörorð sem Blindrafélagið á með öðrum samtökum fatlaðra.

Gildi

 Gildi Blindrafélagsins eru sótt í meginreglur Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Meðal mikilvægustu gildanna í sáttmálanum eru:

v   Jafnrétti: Eykur þátttöku og færir með sér gæfu.

v   Sjálfstæði: Stuðlar að virkni og ábyrgð.

v   Virðing: Elur af sér réttsýni og viðurkenningu.

v   Umburðarlyndi: Stuðlar að fjölbreytileika og víðsýni.

 

Stuðningur til sjálfstæðis

Hlutverk Blindrafélagsins er að stuðla að því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi og séu ábyrgir og virkir samfélagsþegnar.

 

Stöðumat

 Stöðumat er lausleg greining á ytra og innra umhverfi félagsins eins og það er metið af stjórn undir lok árs 2016.

Ytra umhverfi
Almennt stendur Blindrafélagið nokkuð vel gagnvart sínu ytra umhverfi. Félagið á í ágætu samstarfi við mikilvægustu hagsmunaaðila sína, hefur almennt sterka og jákvæða stöðu gagnvart stjórnvöldum þegar kemur að hagsmunamálum félagsmanna. Félaginu hefur einnig gengið ágætlega að koma áherslum sínum og baráttumálum á framfæri í fjölmiðlum.

Samstarf við Þjónustu- og þekkingarmiðstöðina fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga er með miklum ágætum. Miðstöðin veitir fjölbreytta þjónustu til blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga, m.a. félagsráðgjöf, sálfræðiþjónustu, umferlisþjálfun, þjálfun í athöfnum daglegs lífs og sjónmælingar.

Samstarf við Hljóðbókasafn Íslands er einnig mjög gott og er Blindrafélagið án vafa einn mikilvægasti bakhjarl safnsins enda þjónusta þess félagsmönnum mjög mikilvæg eins og skoðanakannanir hafa sýnt fram á.

Samvinna við Augnlæknafélag Íslands í formi sameiginlegs ráðstefnuhalds og almennrar upplýsingagjafar hefur jafnframt verið aukin. Einnig á félagið í góðu samstarfi við augndeild LSH í gegnum Styrktarsjóð Richards og Dóru.

Viðhorfskönnum sem Capacent Gallup gerði sumarið 2016 meðal almennings, þar sem voru 854 svarendur, sýndi að 78,9% töldu félagið sinna réttindamálum blindra og sjónskertra vel, 15,8% voru hlutlaus og einungis 5,3% töldu félagið standa sig illa. Í samanburði við önnur valin samtök, sem starfa á sambærilegum vettvangi og Blindrafélagið, stendur félagið einnig vel. Félagið fær 5,7 í einkunn af 7 mögulegum, sem er há einkunn. Sama einkunn var 6,1 árið 2009 og 6 árið 2014. Fólk almennt (almenningur og stuðningsmenn) er mjög jákvætt gagnvart hjálpar- og góðgerðarsamtökum.

Frá könnunum sem gerðar voru árin 2009, 2011 og 2013 hefur félaginu tekist að raungera aukinn vilja sem þá mældist til að styrkja Blindrafélagið umtalsvert. Fjöldi þeirra sem svara því að þeir hafi styrkt Blindrafélagið hefur nærri þrefaldast frá árinu 2009 til 2014 og 2016. Þannig svöruðu árið 2009 4,3% því að þeir styrktu Blindrafélagið reglulega, í könnuninni 2011 var talan orðin 9,3%, árið 2014 mældist þessi hópur 11,8% og 2016 12%. Árin 2009 og 2011 sögðust 57% svarenda hafa styrkt félagið, en ekki reglulega, árið 2014 var talan 53,6% og 2016 55,8%. Árið 2009 sögðust 37,2% svarenda ekki hafa styrkt félagið en geta hugsað sér að gera það, árið 2011 mældist sami hópur 31,5%, 32,1% árið 2014 og 28,9% árið 2016. Einungis 3,3% svöruðu því til að þeir gætu ekki hugsað sér að styrkja Blindrafélagið Öflugustu stuðningsmenn Blindrafélagsins eru elstu aldurshóparnir. Þegar aldurshóparnir undir 54 ára, sem segjast ekki hafa styrkt félagið en gætu hugsað sér að gera það, eru skoðaðir nánar og greindir út frá aldri kemur eftirfarandi í ljós:

  • 18–24 ára: 76% árið 2009, 89% árið 2014 og 78% árið 2016.
  • 25–34 ára: 53% árið 2009, 57% árið 2014 og 61% árið 2016.
  • 35–44 ára: 27% árið 2009, 35% árið 2014 og 36% árið 2016.
  • 45–54 ára: 12% árið 2009, 19% árið 2014 og 16% árið 2016.

 

Yngri aldurshóparnir eru mun stærri en þeir eldri og því eru þessar niðurstöður mjög hvetjandi til að halda úti áframhaldandi öflugu fjáröflunarstarfi félagsins. Til að ná árangri í að raungera þennan vilja yngri aldurshópanna þarf að skoða aðrar fjáröflunarleiðir en hinar hefðbundnu fjáraflanir sem félagið hefur reitt sig á til þessa.

 

Innra umhverfi

Þann 1. nóvember 2016 eru 680 aðalfélagar í Blindrafélaginu. Á sama degi er 1551 á skrá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sem rétt á til félagsaðildar. Félagsaðild eftir aldurshópum er eftirfarandi:
0–18 ára: 165 á skrá, aðalfélagar 45, félagsaðild 27% (foreldradeild).
19–35 ára: 80 á skrá, aðalfélagar 53, félagsaðild 66%.
36–67 ára: 227 á skrá, aðalfélagar 148, félagsaðild 65%.
68–85 ára: 480 á skrá, aðalfélagar 205, félagsaðild 43.
86+ ára: 599 á skrá, aðalfélagar 229, félagsaðild 38%.

Séu allir hóparnir teknir saman er félagsaðild þeirra sem eru á skrá hjá Miðstöðinni 44% og hefur hlutfall aðildar vaxið úr 40% á seinustu árum. Ef elsti og yngsti hópurinn eru ekki reiknaður með er félagsaðild um 52%.

Ítarlegri upplýsingar má sjá í töflunni hér fyrir neðan:

 

Aldur Fjöldi Lögbl. Sjónsk. % Lögbl. % Sjónsk. Félagar % Félagar
0-18 165 100 65 61% 39% 45 27%
19-35 80 49 31 61% 39% 53 66%
36-67 227 166 61 73% 27% 148 65%
68-85 480 244 236 51% 49% 205 43%
86+ 599 328 271 55% 45% 229 38%
Samtals 1551 887 664 57% 43% 680 44%

 

Félagið hefur áhrif á hagsmunamál félagsmanna með því að taka frumkvæði í einstökum málum. Er það m.a. gert með samráði við hagsmunaaðila, lögfræðilegri aðstoð við einstaklinga í fordæmisgefandi málum og fjárveitingum til ákveðinna verkefna í formi styrkja.

Hagsmunatengd verkefnavinna á skrifstofunni hefur verið aukin verulega:

·       Samskipti við stjórnvöld hafa skilað réttarbótum, t.d. í formi laga og reglusetninga.

·       Ný ferðaþjónustuúrræði hafa verið tryggð í samvinnu við félagsmenn og/eða einstök sveitarfélög.

·       Blindrafélaginu tókst að halda ferðaþjónustu Blindrafélagsins í Reykjavík utan við útboð Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um ferðaþjónustu við fatlaða og í framhaldinu gera nýjan og miklu betri ferðaþjónustusamning við Reykjavík og svo við fleiri sveitarfélög í kjölfarið.

·       Stigið hefur verið inn í mál einstaklinga innan skólakerfisins þótt slík tilfelli séu núna nánast óþekkt.

·       Aðgengisfulltrúi á upplýsingasviði er starfandi hjá félaginu.

·       Þjónustufulltrúi til að sinna sérstaklega tækniþjónustu (vefvarp, símar, talgervill o.fl.) er í starfi hjá félaginu.

·       Þjónustufulltrúi til að aðstoða sérstaklega deildir félagsins er starfandi hjá félaginu. Félagsmönnum hefur verið boðin aðstoð réttindalögmanns.

Enn eru dæmi um sveitarfélög og stofnanir sem að mati Blindrafélagsins bjóða ekki lögbundna þjónustu, hvort sem um er að ræða akstursþjónustu, félagsþjónustu eða aðra þjónustu. Mikilvægt er að kalla fram slík dæmi þannig að leita megi leiðréttinga eftir lögformlegum leiðum ef með þarf.

 

Félagið hefur um margra ára skeið haft forgöngu um að setja nálægt 200 milljónir króna í mikilvæg og verðmæt verkefni til hagsbóta fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga hér á landi. Flest, ef ekki öll, hafa verkefnin haft þann tilgang að stuða að auknu sjálfstæði blindra og sjónskerta einstaklinga.

Stuðningur til sjálfstæðis – Styrktarsjóður Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins er sjóður sem varð til við samruna hvatningarstyrkja, námsstyrkja, hjálpartækjastyrkja og Menntunarsjóðs til blindrakennslu, ásamt 15 milljóna króna afmælisgjöf frá Blindravinafélagi Íslands í tilefni af 70 ára afmæli Blindrafélagsins árið 2009. Tilgangur sjóðsins er að veita:

  • Náms-, ferða- og ráðstefnustyrki til fagfólks sem starfar með blindum og sjónskertum einstaklingum eða að hagsmunamálum þeirra.
  • Náms-, ferða-, endurhæfingar- og ráðstefnustyrki til félagsmanna Blindrafélagsins.
  • Styrki til félagsmanna Blindrafélagsins til kaupa á hjálpartækjum og öðrum mikilvægum búnaði.
  • Verkefnastyrki til verkefna sem eru hagsmunum blindra og sjónskertra til framdráttar.

Nánari skilgreiningar og reglur skulu settar í úthlutunarreglum fyrir hvern og einn styrktarflokk. Sjóðurinn er með sjálfstæða stjórn og í vörslu Blindrafélagsins.

Samþykktar styrkumsóknir úr styrktarsjóði Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins, Stuðningi til sjálfstæðis, og Menntunarsjóði til blindrakennslu:

  • Náms-, ferða- og ráðstefnustyrkir til fagfólks sem starfar með blindum og sjónskertum einstaklingum eða vinnur að hagsmunamálum þeirra: 17 milljónir króna.
  • Náms-, ferða-, endurhæfingar- og ráðstefnustyrkir til félagsmanna Blindrafélagsins: 4 milljónir króna.
  • Styrkir til kaupa á hjálpartækjum og tölvubúnaði: 2,54 milljónir króna.
  • Styrkir til verkefna sem eru hagsmunum blindra og sjónskertra til framdráttar: 59 milljónir króna.

Önnur verkefni:

  • Talgervilsverkefni Blindrafélagsins sem margir aðilar komu að fjármögnun á: 85 milljónir króna.
  • Leiðsöguhundaverkefnið: 26 milljónir króna.
  • Vefvarpsverkefni Blindrafélagsins: 6 milljónir króna.
  • Kostnaður vegna uppsetningar á Daisy-streymisaðgangi hjá Hljóðbókasafni Íslands fyrir vefvarp Blindrafélagsins: 12 milljónir króna.
  • Gjöf til augndeildar LSH á tæki til tilraunameðferðar við RP: 1 milljón króna.

Aðrir sjóðir sem eru starfandi á vettvangi félagsins eru:

  • Blind börn á Íslandi: Sjálfstæð stjórn. Hlutverk sjóðsins er að styrkja blind og sjónskert börn allt að 18 ára aldri til kaupa á ýmsu því sem getur orðið þeim til aukins þroska og ánægju í lífinu. Þar á meðal eru sérhönnuð leikföng, leiktæki, hljóðfæri, tölvur og annað slíkt sem opinberir aðilar styrkja ekki foreldra til kaupa á. Sjóðurinn í vörslu Blindrafélagsins.
  • Styrktarsjóður Margrétar Jónsdóttur: Sjálfstæð stjórn.
    Tilgangur sjóðsins er að styrkja foreldra/forráðamenn barna allt að 18 ára aldri sem greinst hafa blind eða með alvarlega augnsjúkdóma. Sjóðurinn veitir einungis styrki vegna verkefna eða hluta sem eru ekki styrktir af opinberum aðilum eða sjóðum sem koma að málum blindra og sjónskertra barna. Sjóðurinn í vörslu Blindrafélagsins.
  • Styrktarsjóður Dóru Stefánsdóttir og Richards P. Theodórs:
    Sjálfstæð stjórn. Tilgangur sjóðsins er að styrkja blint fólk á aldrinum 16–25 ára og/eða mennta fólk í þágu blindra og blinduvarna. Sjóðurinn í vörslu Blindrafélagsins.

Mikilvæg uppspretta fjármuna sem hægt er að veita til verkefna af þessu tagi kemur til Blindrafélagsins í formi erfðafjárgjafa. Einstaka sinnum hendir það að erfðafjárgjafir til Blindrafélagsins eru með svo ítarlegum eða þröngum notkunarskilmálum að gagnsemi þeirra getur ekki orðið eins markviss og æskilegt væri að mati Blindrafélagsins. Til að auðvelda þeim sem vilja arfleiða félagið að verðmætum væri rétt að setja fram leiðbeiningar á vefsíðu félagsins og í bæklingi um með hvað hætti erfðafjárgjafir gagnist best Blindrafélaginu.

Samkvæmt skoðanakönnun Capcent Gallup, sem gerð var sumarið 2011, telur mikill meirihluti félagsmanna (93%) að Blindrafélagið sinni réttindamálum blindra og sjónskertra vel. Mjög stórt hlutfall félagsmanna segir þeim mjög vel eða að öllu leyti vel sinnt og hefur viðhorf félagsmanna breyst töluvert til batnaðar frá síðustu mælingu.

Mikil ánægja er meðal félagsmanna með þjónustu Blindrafélagsins og er ferðaþjónustan sá þjónustuþáttur sem mestu virðist skipta fyrir félagsmenn samkvæmt mælingum sem Capacent Gallup hefur gert fyrir félagið meðal félagsmanna.

Undanfarin ár hafa reglulega verið haldnir samráðsfundir stjórnar, deilda, nefnda og klúbba innan félagsins í september og janúar. Hafa þessir fundir gefist mjög vel til að skipuleggja og samræma félagsstarfið.

Innra umhverfi félagsins er almennt stöðugt. Helstu verðmæti þess liggja í:

·       Sterkri fjárhags- og eignastöðu.

·       Stöðugu og virku skipulagi starfseminnar.

·       Jákvæðu orðspori.

·       Stórum hópi skráðra velunnara.

·       Góðri þátttöku félagsmanna í félagsstarfinu.

 

SVÓT - Styrkleikar – Veikleikar – Ógnanir – Tækifæri

 SVÓT-greining er samandregin niðurstaða úr stöðumatinu, innri og ytri greiningu, og er ætlað að varpa ljósi á hvar styrkleikar og veikleikar kunna að liggja í innra umhverfi félagsins og sömuleiðis hvar kunna að vera tækifæri eða ógnanir í ytra umhverfi félagsins.

Styrkleikar í innra umhverfi:

v  Traust fjárhagsstaða – forsenda þess að félagið geti tekið frumkvæði og verið virkur gerandi.

v  Sterk staða meðal félagsmanna – mjög stór hluti er mjög ánægður með réttindagæsluna (93%) og þjónustu félagsins samkvæmt skoðanakönnun frá 2014.

v  Fjölbreytt og öflugt félagsstarf.

v  Stöðugt og virkt skipulag á starfsemi félagsins, m.a. fjölbreyttar fjáraflanir sem skila félaginu góðum tekjum.

Veikleikar í innra umhverfi:

v  Félagsaðild, sem er 46%, gæti verið almennari.

v  Breytt aldursbil félagsmanna er mikil áskorun við að mæta þörfum og væntingum allra varðandi félagstarf.

Ógnanir í ytra umhverfi:

v  Mögulegar breytingar á smásölumarkaði og rekstrarumhverfi Blindravinnustofunnar með tilkomu Costco-verslunarkeðjunnar á íslenskan markað.Mögulegar sameiningar ríkisstofnana.

v  Samdráttur í opinberum útgjöldum og lækkandi þjónustustig.

v  Lækkandi verðgildi þjónustusamninga við hið opinbera. Óvissa og órói í samfélaginu í kjölfar alþingiskosninga.

v  Ófullnægjandi rafrænt aðgengi.

v  Erfið staða á húsnæðismarkaði.

v  Markaðsvæðing þjónustu við blint og sjónskert fólk.

 

Tækifæri í ytra umhverfi:

v  Innleiðing Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétttindi fatlaðs fólks á að gefa færi á að sækja bætta stöðu og þjónustu til handa fötluðum.

v  Góð staða gagnvart stjórnvöldum og stofnunum.

v  Sterk og jákvæð ímynd meðal almennings og stuðningsmanna.

v  Fjáröflunarmöguleikar meiri en tekist hefur að raungera, sérstaklega meðal yngri aldurshópa en hafa að jafnaði styrkt Blindrafélagið.

v  Evróputilskipunin um rafrænt aðgengi.

v  Marrakess-sáttmáli Sameinuðu þjóðanna.

 

Framtíðarsýn

Full mannréttindi í samfélagi fyrir alla eru kjarninn í framtíðarsýn Blindrafélagsins. Samfélag sem byggir á virðingu og viðurkenningu fyrir fjölbreyttum þörfum allra einstaklinga til að lifa sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi.

Félagið er í fremstu röð, uppbyggjandi, framsækið, réttindamiðað og starfar af heilindum. Verk félagsins hafa samfélagslega þýðingu og bæta og verja lífsgæði félagsmanna.

Blindrafélagið hefur það sem lokatakmark að verða óþarft.

Sóknaráætlun

Sóknaráætlun gegnir því hlutverki að vera brúarsmíð frá núverandi stöðu yfir í framtíðarsýn félagsins. Sóknaráætlun felur í sér meginmarkmið, starfsmarkmið og verkefni.

Meginmarkmið

Í meginmarkmiðum er lögð áhersla á að markmiðin séu almenn, stutt, eftirminnileg, gegnsæ og að þau skarist ekki, en innifeli mikilvæga meginþætti í starfsemi félagsins. Meginmarkmiðin eru:

a)  Stuðningur til sjálfstæðis

b)  Traust réttinda- og hagsmunagæsla

c)  Uppbyggilegt fræðslustarf

d)  Öflugt félagsstarf

e)  Góð þjónusta

f)   Fagleg stjórnun

g)  Jafningjastuðningur og valdefling

h)  Vísindaþróun á sviði meðferða og lækninga

i)   Öflugur samstarfsaðili og þátttakandi

Starfsmarkmið og verkefni

Setning starfsmarkmiða felur það í sér að verið er að brjóta niður meginmarkmiðin. Starfsmarkmiðin skulu vera sértæk, mælanleg, samþykkt, viðeigandi og tímaháð, ef þess er nokkur kostur. Möguleiki er þó að gera verkefni sem heyra undir starfsmarkmið mælanleg ef það hentar betur en að hafa starfsmarkmiðin mælanleg. Hér fyrir neðan verða starfsmarkmið og verkefni sett upp undir hverju meginmarkmiði.

A)     Stuðningur til sjálfstæðis

Starfsmarkmið A-1:
Blindrafélagið skal í öllu sínu fræðslu- og útgáfustarfi leggja áherslu á að kynna fyrir samfélaginu fjölþætta hæfni og getu blinds og sjónskerts fólks og stuðla með því að aukinni vitund og þekkingu almennings á hæfni blindra og sjónskertra einstaklinga.

Verkefni A-1.1  Halda á lofti slagorði félagsins: „Stuðningur til sjálfstæðis“.
Ábyrgð: Formaður/Framkvæmdastjóir.
Í stöðugri vinnslu.

Verkefni A-1.2  Gera reglulega viðhorfskannanir meðal almennings og félagsmanna, bera saman við fyrri kannanir og nýta til að bæta starfsemi félagsins til fræðslu og upplýsingagjafar.
Ábyrgð: Stjórn.

                Starfsmarkmið A-2:
Kynna og starfrækja styrktarsjóðinn „Stuðningur til sjálfstæðis – styrktarsjóður Blindravinafélags Íslands og Blindrafélagsins“ sem hófst 2012.

Verkefni A-2.1 Unnið verði að því að tryggja og auka við ráðstöfunarfé sjóðsins. Í þeim efnum skal m.a. sækja um styrki úr öðrum sjóðum. Útbúa skal sérstakt kynningarefni í þeim tilgangi. Stefnt skal að því að sjóðurinn verði kominn í 50 m.kr. innan 5 ára (2021) til að hann verði sjálfbær og geti staðið undir því sem vænst er af honum.
Ábyrgð: Stjórn sjóðsins og félagsins.

Starfsmarkmið A-3:
Náið og gott samstarf við helstu þjónustustofnanir blindra og sjónskertra einstaklinga: Þjónustu- og þekkingarmiðstöðina fyrir blinda,sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Hljóðbókasafn Íslands.

Verkefni A-3.1 Vinna að því með Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni                     fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga                               að:

·            kynna notagildi leiðsöguhunda fyrir blinda,

·            nægur fjöldi leiðsöguhunda sé til reiðu         svo hægt verði að úthluta í samræmi við þörfina á hverjum tíma,

·             ferðafrelsi leiðsöguhunda milli landa verði rýmkað.
                         Ábyrgð: Stjórn og framkvæmdastjóri.

Verkefni A-3.2  Gefa út leiðsöguhundadagatal til fjáröflunar fyrir kaup og þjálfun leiðsöguhunda og til að kynna tilvist þeirra fyrir almenningi.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri/Fjáröflunar- og markaðsdeild.
Lokið: Desember ár hvert.

Verkefni A-3.3  Þróa og viðhalda aðgangi að hljóðbókum í gegnum aðgengilega tækni á hverjum tíma.  
Ábyrgð: KHE, BSS.
Í stöðugri vinnslu.

Starfsmarkmið A-4:
Tryggja tilvist vandaðs íslensks talgervils og nýtingu hans til að bæta aðgengi að upplýsingum og afþreyingu.

Verkefni A-4.1  Fylgjast með þróun í talgervismálum og vinna að því  að hægt verði að nota íslensku Ivona-raddirnar á sem fjölbreyttustum tölvubúnaði. Í því sambandi skal huga að útgáfu á smærri og léttari útgáfum af íslensku röddunum.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, BSS.
Í stöðugri vinnslu.

Verkefni A-4.2  Halda utan um skrá yfir þá sem hafa fengið íslensku Ivona-raddirnar frá Blindrafélaginu í þeim tilgangi að geta sent þeim upplýsingar og veitt þjónustu þegar við á og einnig til að tryggja að sami einstaklingurinn sé ekki tvískráður og með fleiri en einn aðgangslykil í einu.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, BSS.
Í stöðugri vinnslu.

Verkefni A-4.3  Vinna að því að hægt verði að nota íslenskan talgervil á Apple-tölvubúnað.
Ábyrgð:Framkvæmdastjóri, BSS.
Í stöðugri vinnslu.

Verkefni A-4.4  Halda áfram að þróa þjónustu vefvarps Blindrafélagsins. Meðal þess sem skal huga að er nýtt efnisyfirlit, tölvupóstur og streymisþjónusta.

Ábyrgð: Stjórn og framkvæmdastjóri.
Í stöðugri vinnslu.

 

Verkefni A-4.5  Vinna að útbreiðslu á vefþulunni í samstarfi við Félag lesblindra.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, BSS.
Í stöðugri vinnslu.

 

Verkefni A-4.6  Setja upp ferli þar sem tekið er á móti athugasemdum varðandi leiðréttingar á framburði talgervilsins og lagt faglegt mat á hvort þær verða sendar áfram til Ivona til úrvinnslu.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, BSS. 

Verkefni A-4.7  Hefja athugun á því hvaða leiðir eru best til þess fallnar að tryggja aðgang að hágæða íslenskum talgervilsröddum. Meðal annars skal athuga í samstarfi við Read Speaker möguleika og hagkvæmni þess að bæta núverandi raddir, Karl og Dóru, eða hvort betra er að láta gera nýjar.

B)     Traust hagsmunagæsla

Starfsmarkmið B-1:
Halda uppi þrýstingi á stjórnvöld um að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði að fullu innleiddur.

Verkefni B-1.1  Vinna að því á vettvangi ÖBÍ, með öðrum samtökum fatlaðra sem eru að vinna með Sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að setja þrýsting á stjórnvöld um að sáttmálinn verði innleiddur að fullu hið fyrsta og viðeigandi lagaumgjörð uppfærð.
Ábyrgð: Formaður, varaformaður. Í stöðugri vinnslu.

Verkefni B-1.1  Kynna innihald sáttmálans á miðlum félagsins.
Ábyrgð: Formaður, GH. Í stöðugri vinnslu.

 

Starfsmarkmið B-2:
Vera með vel sýnilegar aðgerðaáætlanir ef upp koma ásakanir um kynferðislega áreitni eða einelti á vettvangi félagsins.

Verkefni B-2.1 Ljúka innleiðingu á aðgerðaráætlun um viðbrögð við kynferðislegri áreitni, gefa reglurnar út og kynna fyrir félagsmönnum. Öðrum samtökum fatlaðs fólks verður boðið að nýta sér þessa vinnu.
Ábyrgð: SUH, KHE, RMH.
Lokið: 1.03.2017.

Verkefni B-2.2  Setja saman og innleiða aðgerðaráætlun ef upp koma ásakanir um einelti á vettvangi félagsins.
Ábyrgð: SUH, KHE, RMH.
Lokið: 1.03.2017.        

Starfsmarkmið B-3:
Vinna að því að allir félagar Blindrafélagsins eigi kost á lögbundinni ferðaþjónustu sem mætir þörfum þeirra.

Verkefni B-3.1  Kynna fyrir sveitarfélögum ferðaþjónustu Blindrafélagsins og lögbundnar skyldur sveitarfélaga varðandi ferðaþjónustu við fatlað fólk. Jafnframt verði félagsmenn sem ekki búa við viðunandi ferðaþjónustu hvattir til að sækja á sitt sveitarfélag.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri.
Lokið: 31.12.2017.

Starfsmarkmið B-4:
Starfa skipulega að bættu rafrænu upplýsingaaðgengi blindra og sjónskertra einstaklinga.

Verkefni B-4.1  Halda uppi samskiptum við stjórnvöld til að knýja á um lagasetningar og að opinberar vefsíður uppfylli skilyrði alþjóðlegra aðgengisstaðla.
Ábyrgð: Formaður, aðgengisfulltrúi.
Í stöðugri vinnslu.

Verkefni B-4.2  Efna til samstarfs og standa fyrir kynningum á rafrænu aðgengi í fyrirtækjum og fyrir forritara. 
Ábyrgð: Aðgengisfulltrúi.
Í stöðugri vinnslu.

Verkefni B-4.3  Hafa frumkvæði að samskiptum við fyrirtæki og stofnanir varðandi úrbætur á vefsíðum sem eru með aðgengishindranir og ráðgjöf varðandi lagfæringar.
Ábyrgð: Aðgengisfulltrúi, BSS.

Í stöðugri vinnslu.

Verkefni B-4.4  Gera átak í að fjölga upp í 100 heimasíðum fyrirtækja og stofnana sem eru með vefþuluna frá Read Speaker. Sérstök áhersla skal lögð á opinberar stofnanir sem veita almenningi þjónustu. Efnt skal til samstarfs við Félag lesblindra í þessum efnum.

Ábyrgð: Baldur.
Lokið:31.12.2017.

Starfsmarkmið B-5:
Vinna að bættu ferilfræðilegu aðgengi blindra og sjónskertra gangandi vegfarenda.

Verkefni B-5.1  Standa fyrir átaksverkefnum í þeim tilgangi að vekja athygli á því hvernig bæta megi ferilfræðilegt aðgengi blindra og sjónskertra gangandi vegfarenda.
Ábyrgð: Stjórn, aðgengisfulltrúi. Í stöðugri vinnslu.

Verkefni B-5.2  Fylgja eftir Gulum heiminn (Yellow the world) verkefninu í HÍ um að settar verði leiðarlínur og merkingar á skólastofur sem bæta aðgengi blindra og sjónskertra nemenda við HÍ.
Ábyrgð: Formaður.
Lokið: 15. október 2017

Starfsmarkmið B6:
Setja upp Vegvísir Blindrafélagsins fyrir félagsmenn og tryggja að til staðar sé kynningarefni um starfsemi og þjónustu Blindrafélagsins sem dreift verði til allra sem koma til Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar.

Starfsmarkmið B6:
Stefna skal að því að hækka félagsaðild að Blindrafélaginu úr u.þ.b. 45%, að frádregnum allra elsta aldurshópunum, upp í 60% á næstu tveimur árum.
Ábyrgð: MM, KHE

C)     Uppbyggilegt fræðslustarf

Starfsmarkmið C-1:

Halda úti aðgengilegri heimasíðu og virkja samfélagsmiðlana til að koma á framfæri fréttum, fræðslu og afþreyingu af vettvangi félagsins.

Verkefni C-1.1  Uppfæra heimasíðu Blindrafélagsins þannig að hún verði aðgengilegri jafnt fyrir hefðbundnar tölvur og snjallbúnað og virki vel með samfélagsmiðlunum.

Verkefni C-1.2  Regluleg innsetning á efni á miðla félagsins.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, starfsmenn.

Verkefni C-1.3  Gera tilraun til eins árs með vikulega útgáfu fréttabréfs sem sent er félagsmönnum með tölvupósti. Tilgangurinn með fréttabréfinu er að auka markvisst upplýsingastreymi til félagsmanna auk þess að vekja athygli á öðrum miðlum félagsins.

Starfsmarkmið C-2:
Gefa út Valdar greinar á tveggja vikna fresti og kynningu á útgáfutíðni Valinna greina innan félagsins svo hámarka megi notagildi Valinna greina til að koma tilkynningum á framfæri.
Ábyrgð: Stjórn, ritstjórn Valinna greina.

Starfsmarkmið C-3: 
Útgáfa á Víðsjá tvisvar á ári, febrúar og ágúst ár hvert, í vönduðu tímaritaformi. Senda á félaga, stuðningsaðila, einstaklinga í stjórnkerfinu og fjölmiðla.
Ábyrgð: Stjórn, framkvæmdastjóri.

Starfsmarkmið C-4:
Vera með í boði kynningarefni sem nota má í skólum, fyrirtækjum og stofnunum til að kynna málefni blindra og sjónskertra og Blindrafélagið.

Starfsmarkmið C-5: 
Halda ráðstefnur og/eða fræðslufundi sem tengjast sjónvernd á alþjóðlegum sjónverndardegi annan fimmtudag í október ár hvert. Nota Dag hvíta stafsins, 15. október, til að vekja athygli á hagsmunamálum blindra og sjónskertra einstaklinga. Halda úti kynningarstarfi i kringum áramót þar sem varað er við augnslysum.
Ábyrgð: Stjórn.


D)     Öflugt félagsstarf

Starfsmarkmið D-1: 
Stuðla að og styðja við skipulagt og öflugt félagsstarf í deildum, nefndum félagsins og Opnu húsi: Foreldradeild, Jafnréttisnefnd, Norðurlandsdeild, AMD-deild, RP-deild, Suðurlandsdeild, Suðurnesjadeild, Vesturlandsdeild, Ungblind, og starfandi nefndum.

Verkefni D-1.1  Halda samstarfsfundi stjórnar, nefnda og deilda Blindrafélagsins í september og janúar ár hvert þar sem farið er yfir starfið framundan.
Ábyrgð: Stjórn.

Verkefni D-1.2  Halda úti Opnu húsi að jafnaði tvisvar í viku og einu sinni í mánuði á laugardögum yfir vetrartímann.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri.Í stöðugri vinnslu.

Verkefni D-1.3  Koma upp og starfrækja hugmyndabanka Blindrafélagsins þar sem félagsmenn geta komið á framfæri við stjórn hugmyndum um nýjungar í félagstarfi og ábendingum um það sem betur má fara um hagsmuna- og réttindamál blindra og sjónskertra á Íslandi.

Starfsmarkmið D–2:

Halda skal almenna félagsfundi innan félagsins á hausti og að vori auk aðalfundar félagsins sem haldinn er að vori.
Ábyrgð: Stjórn.Í stöðugri vinnslu.

Starfsmarkmið D–3: 
Efla tengsl og stuðla að valdeflingu og jafningjastuðningi meðal ungmenna innan félagsins, með sumar- og vetrarbúðir fyrir krakka upp að 18 ára aldri í samvinnu við foreldradeild og Ungblind.
Ábyrgð: Stjórn, foreldradeild.
Í stöðugri vinnslu.

E)     Góð þjónusta

Starfsmarkmið E-1:  
Vera með starfsmann sem sinnir persónulegri ráðgjöf til félagsmanna varðandi hin ýmsu úrlausnarefni sem þeir þurfa aðstoðar við.

Starfsmarkmið E-2:  
Bjóða upp á útleigu á hjálpartækjum sem nýst geta í skólum eða í vinnu.

Starfsmarkmið E-3:  
Starfrækja trúnaðarmannakerfi innan félagsins og miða við að starfandi séu a.m.k. þrír aðaltrúnaðarmenn í hlutastarfi. Tilgangurinn með trúnaðarmannakerfinu er m.a. að veita bæði stuðning og fræðslu á jafningjaforsendum.

Starfsmarkmið E-4:

Halda a.m.k. tvö trúnaðarmannanámaskeið á ári til að styrkja trúnaðarmennina í starfi.
Ábyrgð: Brynja, Kaisa.Í stöðugri vinnslu.

Starfsmarkmið E-5:
Vera með íbúðir félagsins í útleigu fyrir félagsmenn, bæði í langtímaleigu sem og skammtímaleigu.

F)     Fagleg stjórnun

Starfsmarkmið F-1:  
Stjórn félagsins skal að jafnaði hittast á tveggja til þriggja vikna fresti yfir vetrartímann og 4–6 vikna fresti yfir sumartímann. Stefnt skal að því að samsetning stjórnar endurspegli kynjahlutföll og aldurssamsetningu innan félagsins að eins miklu leyti og því verður við komið. Varamenn eru boðaðir á alla stjórnarfundi. Auk stjórnarmanna situr framkvæmdastjóri félagsins stjórnarfundi. Bæði aðal- og varamenn fá greitt fyrir þá stjórnarfundi sem þeir sitja.

Verkefni F-1.1  Fyrir stjórnarfund skal liggja fyrir dagskrá, skýrsla formanns og framkvæmdastjóra og önnur þau gögn sem nauðsynleg kunna að vera til að hægt sé að fjalla um þau mál sem eru á dagskrá.
Ábyrgð: Formaður.      

Starfsmarkmið F-2:  
Stjórn félagsins skal samþykkja fjárhagsáætlun fyrir hvert almanaksár. Fjárhagsáætlunina skal yfirfara og endurskoða tvisvar á árinu auk þess sem áætlunin skal höfð til hliðsjónar við allar stærri ákvarðanir sem hafa fjárútlát í för með sér.

                                  

Starfsmarkmið F-3:  
Stefnt skal að því að reglulegar fjáraflanir félagsins og eignatekjur standi undir hallalausum rekstri. Stærri verkefni á vegum félagsins skulu fjármögnuð með utanaðkomandi styrkjum að eins miklu leyti og kostur er og úr öðrum sjóðum á vettvangi félagsins, svo sem verkefnasjóði og Stuðningi til sjálfstæðis.                

Starfsmarkmið F-4:  
Stefnt verði að því að auka fjáraflanir félagsins um 15% á ári. Áhersla skal lögð á að fjölga einstaklingum sem bakhjörlum í því lagskipta bakhjarlakerfi sem komið hefur verið á fót.

Starfsmarkmið F-5:   
Að eins miklu leyti og kostur er skal við samningu starfslýsinga fyrir Blindrafélagið gæta þess að blindir og sjónskertir einstaklingar eigi þess kost að sinna sem flestum störfunum með það í huga að af starfsmönnum félagsins verði eins margir blindir eða sjónskertir og kostur er. Blindur eða sjónskertur umsækjandi um starf hjá Blindrafélaginu skal vinna á jöfnu hæfnismati.
Ábyrgð: SUH, KHE.
Lokið: 31.12.2017.

Starfsmarkmið F-7:  

Leggja skal áherslu á að innan félagsins og milli starfsmenna og félagsmanna ríki góð samstaða um öll helstu stefnumál félagsins.

 

Verkefni F-1.1  Halda skal tvisvar á ári fræðslu- og kynningarfundi með starfsmönnum og stjórn.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri.

G)     Jafningjastuðningur og valdefling

Starfsmarkmið G-1

Innan félagsins skal unnið markvisst að jafningjastuðningi og jafningjafræðslu meðal félagsmanna og að því að hvetja félagsmenn til að taka þátt og gefa af sér í slíku starfi. Sérstaklega sé haft í huga að hlúa að andlegri vellíðan félagsmanna og valdeflingu til að stuðla að því að félagsmenn verði virkari og taki ábyrgð á eigin málefnum.  

 

Verkefni G-1.1  Unnið verði að því að virkja VISAL-verkefnið og                          staðfæra fyrir íslenskar aðstæður. Finna þarf                               leiðbeinendur sem geta haldið VISAL-                                         valdeflingarnámskeið fyrir félagsmenn Blindrafélagsins.                   VISAL-verkefni var þróað m.a. af EBU og hefur þann          tilgang að valdefla blinda og sjónskerta eldri borgara.

Ábyrgð: SUH.

VerkefniG-1.2  Kannaðar verði mögulegar leiðir og útfærslur fyrir                       skipulagt sjálfshjálparhópastarf sem miðar að því að               draga úr kvíða og depurð (með svipuðu sniði og                       sjálfshjálparhópar SÁÁ og Ljóssins).   

Ábyrgð: Stjórn.

Starfsmarkmið G-2

Á vettvangi deilda og nefnda félagsins skal reglulega veittur jafningastuðningur og -fræðsla í gegnum viðburði eins og tæknikvöld, prjónaklúbb, bókmenntaklúbb, gönguferðir og óformlega hittinga.

Starfsmarkmið G-3

Trúnaðarmenn skulu í starfi sínu leggja áherslu á að veita félagsmönnum sem þeir eiga samskipti við andlegan jafningjastuðning að eins miklu leyti og það er þeim mögulegt.

Eftir atvikum skulu þeir geta leiðbeint félagsmönnum um þjónustu fagfólks.

H)     Vísindaþróun á sviði meðferða og lækninga.

Starfsmarkmið H-1:

Blindrafélagið skal fylgjast með þróun mála og stuðla að rannsóknum til að finna meðferðir við sjúkdómum sem valda sjónskerðingu. Upplýsingum um þetta skal miðlað til félagsmanna eftir því sem tilefni er til. Jafnframt fylgja því eftir að íslenska stjórn- og heilbrigðiskerfið bregðist hratt við þegar ný og oft á tíðum dýr lyf eða meðferðir koma fram.

Verkefni H-1     Halda alheimsráðstefnu Retina International í Reykjavík í júní árið 2020 í samstarfi við Augnlæknafélag Íslands og Norrænu augnlæknaráðstefnuna, sem einnig verður í Reykjavík árið 2020.

Verkefni H-2     Standa að og skapa umgjörð fyrir gagnkvæm samskipti og samtal milli félagsmanna og fræðasamfélagsins, m.a. með því að hvetja til og standa fyrir reglulegum ráðstefnum og fræðslufundum um t.d. það sem er að gerast í rannsóknum og tilraunum á hverjum tíma.

Starfsmarkmið H-3:

Blindrafélagið skal hvetja og styðja íslenska augnlækna og heilbrigðisvísindafólk til að afla sér þekkingar og fylgjast með þróun og rannsóknum á nýjungum í meðferð og lækningum á sviði augnsjúkdóma og sjúkdóma sem hafa áhrif á sjón eins og t.d. arfgenga sjónhimnu- og augnbotnasjúkdóma, sykursýki o.s.frv.

I)      Öflugur samstarfsaðili og þáttakandi.

Starfsmarkmið I-1:

Blindrafélagið leitast við að vera virkur þátttakandi í gagnkvæmu samstarfi innan lands sem utan. Slíkt samstarf er öflug uppspretta hugmynda og þekkingar og eflir félagið og félagsmenn til dáða. Með því að sameina krafta sína geta félagssamtök áorkað meiru en hvert í sínu lagi.

 

Starfsmarkmið I-2:

Innlent samstarf. Blindrafélagið verði áfram virkur þátttakandi í starfi ÖBÍ (Öryrkjabandlag Íslands), Almannaheilla og Almannaróms . Blindrafélagið mun einnig rækta samstarf sitt við Fjólu af kostgæfni og leitast við að vera félaginu sá bakhjarl sem óskað er eftir.  

 

 Starfsmarkmið I-3:  

Norrænt samstarf. Blindrafélagið er virkur þátttakandi í norrænu samstarfi. Norrænt samstarf er félaginu mikilvægt og hefur það bæði skilað félaginu hugmyndum um ný verkefni og viðvörunum um hvað beri að forðast þegar kemur að málefnum blindra og sjónskertra.

 

Starfsmarkmið I-4:

EBU (European Blind Union), Evrópusamtök blindra. Blindrafélagið hefur um langt skeið átt aðild að EBU. EBU vinnur mikilvægt starf í að berjast fyrir réttindum blindra og sjónskertra í Evrópu með því að hafa áhrif á Evróputilskipanir og lagasetningu. Tilskipun um innleiðingu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Evróputilskipun um rafrænt aðgengi er þar gott

dæmi.

 

Starfsmarkmið I-5:

WBU (World Blind Union), Alheimssamtök blindra og sjónskertra. Blindrafélagið er eitt af aðildarfélögum WBU. WBU sinnir mikilvægu starfi sem snýr að alþjóðasamfélaginu eins og t.d. Sameinuðu þjóðunum. Samtökin áttu t.d. stóran hlut að Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk þess sem mikið starf var unnið á vettvangi WBU varðandi það að ná í gegn Marrakess-sáttmálanum sem snýr að dreifingu á höfundavörðu efni milli landa.

 

Starfsmarkmið I-6:

Retina International (RI). Blindrafélagið á fulla aðild að RI, sem eru alþjóðleg samtök sem hafa það á stefnuskrá sinni að stuðla að vísindarannsóknum og -tilraunum í þeim tilgangi að finna meðferðir við arfgengum hrörnunarsjúkdómunum í sjónhimnu sem orsaka yfir 80% þeirra tilfella sem valda sjónskerðingu og blindu félagsmanna Blindrafélagsins. Meðal þeirra sjúkdóma sem hér um ræðir eru AMD, RP, Usher, LCA og Stargard.

 Lokaorð

Mikilvægt er að hafa í huga að skýrsla eins og þessi kemur að mestu gagni ef hún fær að vera lifandi stjórnunarverkfæri sem er til stöðugrar skoðunar og endurskoðunar. Reglulega þarf að leggja á það mat hvort aðgerðaráætlunin skilar félaginu nær skilgreindri framtíðarsýn og bregðast við með viðeigandi hætt ef svo er ekki. Rými þarf að vera til að ný verkefni og áherslur geti litið dagsins ljós.  

Stefnumótun eins og þessi er aldrei endanleg, heldur miklu fremur síbreytileg.

Á vinnufundi stjórnar 29.10.2016 var farið yfir stefnumótun Blindrafélagsins frá ágúst 2014 og er þessi útgáfa afrakstur þeirrar yfirferðar.

 

Stjórn Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi: